laugardagur, desember 10, 2005

Barnalegi borgarstjórinn

Mér hefur fundist hún Steinunn Valdís Óskarsdóttir hafa staðið sig ágætlega sem borgarstjóri hingað til. Og tilefni samnings borgarinnar við starfsmenn sína núna, þar sem sumir eru hækkaðir um 30% í launum á þrem árum. er ágætt. Góð hugsun og vel viljandi. En að sama skapi sýnir hún (og hennar samstarfsmenn er að samningnum komu) af sér ótrúlegan barnaskap. Alveg hreint ótrúlegan. Að halda það í eina sekúndu að önnur hagsmunasamtök launþega munu sitja þegjandi yfir þessu.
Stéttarfélög eru nefnilega eins og lítil börn á leikskóla stundum að einu leyti (nema hvað ekki alveg jafn yndisleg). Ef einn fær þá vilja allir líka. Ef eitt stéttarfélag fær háa launahækkun þá vilja hin það líka. Skiptir þá engu um hvaða ástæður liggja þar að baki. Þess vegna eru “leiðréttingar á kjörum” svona erfiðar.

Borgin gerði örlátan samning við starfsmenn sína. Núna kemur hvert stéttafélagið á fætur öðru og vill endurskoðun kjarasamninga. Leikskólakennarar (KÍ), starfsmenn Hafnafjarðarbæjar. Fleiri munu koma. Þessu vöruðu Samtök Atvinnulífsins við og bæjarstjóri Kópavogs. Og Steinunn er hissa og fúl? Og gengur út af fundi í fússi? Vááááá!

Ef Steinunn var með svona háleit markmið handa kvennastéttum og láglaunastéttum þá er það fínt og virðingarvert. En slík stökk eru betur tekin í nokkrum skrefum en í einu stóru. Annað er óþoskaður barnaskapur. Kennarar fengu að finna fyrir því í síðustu kjarasamningum þegar þeir vildu fá "leiðréttingu" sína.

Segjum sem svo að leikskólakennarar fái “leiðréttingu” á sínum kjörum í samræmi við það sem ófaglærðir starfsmenn leikskólanna fengu núna. Heldur Steinunn að önnur aðildafélög kennara í KÍ muni ekki krefjast álíka “leiðréttingar” í næstu kjarasamningum kennara? Góðir landsmenn: Ég spái “leiðréttingarkennaraverkfalli” þegar samningar KÍ renna út. Þökk sé að hluta R-listanum.

Engin ummæli: