fimmtudagur, september 28, 2006

Þengill Sigurjónsson á afmæli í dag. Sonur minn er orðinn 2ja ára. Við vöknuðum í morgun, feðgarnir, rétt fyrir kl. 7 og fórum fram. Stuttu síðar vöknuðu þær mæðgur, Elsa og Bríet. Þá var haldið inn í rúm þar sem sunginn var afmælissöngur fyrir Þengil, sem var ekki alveg sáttur við að við skyldum vera að syngja þetta lag. En svo fékk hann gjöf og varð glaður.

Til hamingju Þengill minn með daginn. Elsku labbakúturinn minn.

mánudagur, september 25, 2006

Hver ætli minnsti minnihlutahópurinn sé?
Hugmynd: Lesbískar, svartar, dvergvaxnar konur, ásatrúar, sem eru albínóar, skrolla, eru í hjólastól og stundar tásluklám.

Og hvað eiga samtök fyrir þessa einstaklinga að heita?
Samtök Lesbískra Ásatrúaðra og Fatlaðra Albínóa Dvergkvenna Sem Skrolla og Tásluklæmast?

Og hvernig skammstafar maður slíka nafnagift? SLÁFADSST? Og í daglegu kallaður SLÁFAST? Og svo þegar þessi minnihlutahópur sendir frá sér álitsgerði kemur í fréttum að "formaður SLÁFAST" segir hvað-sem-hún-segir.

Í þessum nýja minnihlutahóp er tekið á öllu sem einkennir minnihlutahópa. Húðlitur, kynhneigð, kynlífspreference, talgalli, trú, fötlun, líkamsstærð. Er ég að gleyma einhverju?

fimmtudagur, september 14, 2006

Við Elsa gengum í hjónaband í Langholtskirkju á laugardaginn síðastliðinn, 9. sept, sem er brúðkaupsafmælisdagur tengdó. Þrátt fyrir rigningarspár og byljandi rigningu um morguninn rættist mjög vel úr veðri og þegar stundin nálgaðist að ég og pabbi skyldum halda í átt að kirkjunni sá ég að það myndi rætast sem ég var búinn að tauta alla vikuna, meir í von en í sannfæringu, að það myndi sko ekkert rigna. Ég græjaði mig heima hjá mömmu og pabba á meðan að Elsa fór í kjólinn og allt það heima hjá okkur. Svo fór ég í kirkjuna og beið við altarið á meðan vinir og vandamenn streymdu inn. Við pabbi stóðum þarna og hneigðum okkur fyrir þeim er virtu okkur viðlits (furðulegt hvað fáir vita af þessum sið). Síðan kom mín verðandi eiginkona í kirkjuna rétt yfir kl. 4 og athöfnin hófst. Þvílík upplifun! Elsa var/er/verður glæsileg og Bríet stóð sig vel sem brúðarmær. Athöfnin var frábær og einlæg. Bríet og Þengill settu sinn svip á athöfnina og tónlistaratriði Kittu/Sindra og Ásgeirs/Harðar voru frábær. Ég gleymi því aldrei. Síðan var haldið út í brúðarbílinn (lánsbíl frá Heklu, nýjann Audi A6 með öllu) og haldið niður í Grasagarðinn í myndartöku hjá Sissu ljósmyndara. Þar var einnig frábær stund hjá okkur nýgiftu hjónunum á frábærum stað.
Síðan var haldið í veisluna á hótel Nordica, með smá stoppi í Berjarima, og þar biðu veislugestir eftir okkur með miklum fögnuði. Það var frábær stund að ganga þarna inn og hitta alla sína vini og ættingja sem bíða eftir að fagna með okkur Elsu þessum frábæra degi.
Veislan byrjaði fljótt og var strax augljóst að við höfðum valið vel með Nordica. Starfsfólkið stóð sig rosalega vel, öll aðstaða og umgjörð var frábær og stemmningin sem myndaðist þarna var alveg frábær. Ræður, skemmtiatriði, maturinn, hljómsveitin Vítamín. Allt var frábært og við Elsa nutum svo gestrisni Nordica í svítu frá þeim yfir nóttina.
Þetta var frábær dagur, ekkert klikkaði og það var frábært að njóta slíks unaðsdagar af þessu frábæra tilefni með sínum nánustu.
Ég set inn myndir á ljósmyndaalbúminu mínu fljótlega.

laugardagur, september 09, 2006

Brúðkaup í dag

Kæri lesandi. Í dag munum við Elsa ganga að eiga hvort anna. Ég hlakka svoooo til og er að stelast til að skrifa þetta hérna því það er sko nóg að gera ennþá.
Myndir munu verða birtar á heimasíðu minni, www.sigurjon.net við fyrsta tækifæri. Einnig er hægt að fylgjast betur með þessum viðburð og aðdraganda hans á www.brudkaup.biz.

sunnudagur, september 03, 2006

Elsa var gæsuð um daginn, ég var steggjaður í gær :) Í fyrradag fékk ég fundarboð í vinnunni um að fara í franska sendiráðið með yfirmönnum mínum og ræða við sendiráðsstarfsmenn um netbankann okkar í KB banka. Og mig grunaði ekki neitt að eitthvað væri bogið við þetta. Síðan kom Sigurgeir, vinnufélagi minn og vinur, til mín í vinnunni og sagði að hann og Brynjar færu á fundinn einnig og þá fóru viðvörunarbjöllur að glyma. "Það er eitthvað bogið við þetta, á nú að steggja mig" hugsaði ég með mér. En í hádegismatnum spjölluðum við Danni um fundinn og þá var ég eiginlega sannfærður um að raunverulegan fund væri að ræða. Svo var farið á fundinn á Bimmanum hans Brynjars og þegar í sendiráðið kom stóð föngulegur hópur vina minna og vandamanna á bílastæðinu fyrir utan. Þar voru staddir Friðgeir bróðir, Tóti frændi, Þorfinnur, Sigurjón Atli, Jóngeir, Sindri mágur, og Rúnar. Nú átti að steggja mig.

Fyrsti áfangastaður var í Heiðmörk rétt við Rauðhóla. Þar var farið í M-16 og farið í fullorðins byssó. Þar var rosalega gaman allt þar til Tóti frændi fótbrotnaði. Hann var að gera árás á flaggið
liðsins míns, steig á dautt tré sem lá við mig, festi fótinn í greinunum, féll á mig og fótbrotnaði. Það var hringt á sjúkrabíl og Tóti fór með honum á slysó. Við heyrðum í honum seinna (reyndar nokkrum sinnum) og hann fór í aðgerð á fætinum um kvöldið til að laga brotið. S.s. það réðst á mig maður í fullum herklæðum og hann vaknaði daginn eftir á gjörgæslu :)

M-16 var leikið af miklum móð og skemmtum við okkur konunglega. Síðan þegar sá leikur var búinn var farið af stað í átt að Jósefsdal í gryfjuna þar. Þar mætti Þorfinnur með enduro-hjólið sitt og ég fékk að spreyta mig á krossarafærni minni, sem er orðin ryðguð og stirð af 15 ára vanrækslu. Ég þeysti á fáki fráum um brautina þar til mér var gefið merki um að hætta. Þá hélt ég í hlaðið enda uppgefinn. Svitinn var svo mikill að meira að segja nærbuxurnar mínar voru gegndrepa af svita, hvað þá hjálmurinn og allur gallinn.

Eftir mótorhjólaþeys var haldið í sundlaug Grafarvogs og farið í sund. Ég fékk þó ekki sundskýlu heldur sundbol, takk fyrir! Eins og það væri einhver hindrun. Steggjunarmeistarar áttuðu sig ekki á því að þeir voru að steggja stegg sem hafði klætt í slíkan bol áður (af illri nauðsyn). Ég fór bara í neðri helminginn og hagræddi honum þannig að bolurinn leit út eins og skýla. Síðan var farið í pottinn og tvær bunur í rennibrautinni. Þar var skorað á mig að fara í bolinn alveg og ég varð við því. Maður verður jú að taka þátt í þessu :)

Eftir sundlaugarferð var farið heim til Valda og þar var byrjað að sturta í sig og pantaðar pizzur. PAAAAAAARRRTÍÍÍÍÍÍÍ! Þungarokki blastað í botni. Anthrax, Slipknot, Metallica, Slayer. Og 10 sek. af Britney Spears upp á jókið. Ég skemmti mér vel, svo vel að ég endaði á því að faðma keramikið og leggjast í sófann. Síðan var mér skutlað heim í leigubíl og Þorfinnur fylgdi mér inn, svona til að tryggja það að ég færi alla leið heim, 100%. Strákarnir héldu svo áfram djamminu í bænum í einhvern tíma.

Ég vill þakka fyrir mig, þessi steggjum var frábær og sýndi mér hvað ég á góða vini.