fimmtudagur, júlí 28, 2005

Mótmæli atvinnubílstjóra gegn olíugjaldinu

Ég sat illa sofinn (kom frá Danmörku í nótt) með 10 mán. son minn (sem vaknaði að sjálfsögðu á sínum tíma, kl.6) fyrir framan Ísland í bítið áðan og þar var Mörður Árnason og Birgir Árnason að ræða um margt og mikið. Eitt af því sem var rætt voru yfirvofandi mótmæli atvinnubílstjóra gegn breytingum á olíugjaldinu. Mörður sagði að þau myndu beinast gegn þeim sem hefðu ekkert með þetta að gera, almenningi. En hverjir borga olíugjald og bensíngjald? Allir bifreiðaeigendur. ALLIR. Þannig að þeir sem verða fyrir töfum af þessum sökum eru aðrir greiðendur gjaldsins mikla. Þannig að gerendur og þolendur eru á sama báti þannig séð.
En Mörður var ekki á eitt sáttur við þessar aðgerðir. Skrítið, hann er yfirleitt fylgjandi svona aðgerðum... Allavega þá er ég stuðningsmaður þessara aðgerða. Þó fyrr hefði verið. Atvinnubílstjórar hérlendis geta lært ýmislegt af kollegum sínum í Frakklandi.

En það var þó einn góður punktur sem Mörður kom með sem er algerlega þess virði að atvinnubílstjórar athugi betur. Það var að láta harðar aðgerðir beinast á þeim sem bera beina ábirgð á þessum breytingum, sem ég tel btw arfavitlausar. Elta Geir H. Haarde á röndum og loka hann og hans bíl inni með trukkum án afláts. Að leigubílstjórar taki sig saman og neiti að keyra fyrir Fjármálaráðuneytið. Aðgerðir af slíkum toga.

Ég keyrði diesel bíl (turbo) í Danmörku og verð að segja að eftir þá reynslu myndi ég hiklaust fá mér einn slíkann ef það yrði hagstætt fyrir mig. Sem það er ekki eins og staðan er í dag, því miður. Fínn kraftur og sparneytinn.

sunnudagur, júlí 24, 2005

Þengill farinn að skríða almennilega - nýtt starf

Þengill er farinn að skríða ”venjulega” ef hægt er að orða það svoleiðis. S.s. farinn að skríða á fjórum fótum. Hann er farinn að vera frekar snar í snúningum og nýtir þennan nýuppgötvaða ferðamáta til að skoða umhverfi sitt vel og vandlega.

Ég vann minn síðasta vinnudag hjá Valhúsaskóla 30 júní sl. Fór síðan í sumarfrí og þegar því líkur hef ég störf í KB banka. Verð þar í netþróunarhóp. Spennandi starf og ég hlakka mikið til að byrja á staðnum. Ég hef hitt samstarfsmenn mína væntanlega og líst svo sannarlega vel á hópinn.