sunnudagur, desember 31, 2006


Ég, og mín fjölskylda, óska vinum okkar, 
ættingjum og öllum Íslendingum nær og fjær, 
gleðilegs nýs árs og farsældar á nýju ári. 

föstudagur, desember 29, 2006

fimmtudagur, desember 28, 2006

Hættur hjá KB banka


Það tilkynnist hér með að Sigurjón Sveinsson [ég], vefforritari hjá KB banka, Upplýsinga- og tölvusviði, er hættur störfum þar.

mánudagur, nóvember 27, 2006

Við Elsa vorum í ferðalagi í Baltimore ásamt trem öðrum hjónum. Skemmtileg ferð um margt, mikið borðað.
En ég sá skó sem ég mátaði og keypti meira að segja, enda voða flottir. Það sem vakti þó athygli mína var að á kassanum stóð "metal detector friendly". Það þykir þá s.s. kostur í Bandaríkjunum að skór komist í gegnum málmleitartæki án þess að þau bípi.

Þetta segir held ég margt um það þjóðfélag sem þar er.

laugardagur, nóvember 04, 2006

Bankar mega fara úr landi
Ögmundur Jónasson, alþingismaður og formaður BSRB, segir það vinnandi að senda viskiptabankana úr landi til að geta aukið jöfnuð í samfélaginu. Ögmundur segir misskiptingu og ranglæti þrífast og breiða úr sér sem aldrei fyrr. Bankarnir greiði aðeins 12 milljarða fjármagnstekjuskatt af 120 milljarða hagnaði og hóti að hverfa úr landi verði skatturinn hækkaður.
Spurning sé hvort jafnaðrsamfélaginu sé fórnandi fyrir 12 milljarða og nokkra stráka og stelpur í silkifötum. "Er þotuliðinu fórnandi fyrir meiri jöfnuð og félagslegt réttlæti? Mitt svar er já," skrifar Ögmundur.

Ég las þessi orð Ögmundar í morgun og ég er búinn að vera hálf ónýtur maður í allann dag út af þessu. Ég hef alltaf borið mikla virðingu fyrir Ögmundi og virt hann mikils (ég er btw sjalli af frjálshyggjuvængnum). En svo opnaði ég Fréttablaðið í morgun og las þessa grein. Reyndar var ég svo lukkulegur að kíkja á heimasíðu hans og sá þá að hann var að vitna í einhverja Ólínu sem greinilega er úti á túni því bankarnir greiða 18% skatt af hagnaði og svo eru 10% skattar á útgreiddan arð. En hvað um það, Ögmundur gerir hennar orð að sínum...

Ögmundur gælir þarna við það að senda bankana úr landi af því að þeir græða of mikið, allt í nafni þess að réttlæta jöfnuð. Hann setur sig í bloggi sínu samþykkann orðum þessarar Ólínu (sem hann vitnar ekki beint í) án þess að gera þessar skoðanir sínar beint.

Það vill nú svo til að ég er bankastarfsmaður í KB banka. Og var í dag á starfsdegi KB banka. Og þar voru kynntar til sögunnar tölur af því að fjármálastarfsemi í landinu er farinn að vera meira virði en ALLUR SJÁVARÚTVEGUR TIL SAMANS. Þannig að það sem situr í mér eftir daginn er þetta:

Skv. Ögmundi í gegum órædda Ólínu, er það réttlætanlegt að reka bankastarfsemi úr landi, gera hana brottræka, í nafni jöfnuðar. Vegna þess að einhverjir græða í fjársýslu, á meðan að einhver hópur hefur það skítt, þá á að reka þá úr landi sem eru búnir á örfáum árum að skapa hagkerfi sem er öflugra en allur sjávarútvegur landsins. Reka úr landi lánastarfsemina, frumkvöðlastarfsemina, styrkina, allann kraftinn sem með/frá bönkunum kemur? Þetta segir Ögmundur (vitnandi í ónefnda Ólínu) á sama tíma og Framtíðarlandið er hafið upp til himna sem einhver alhliðarlausn á framtíðaratvinnu landans, sérstaklega af vinstri-græna vængnum. What the fuck???? Hvað í fjandanum heldur Ögmundur að Framtíðarlandið sé, ef ekki sá kraftur og það frumkvöðlaafl sem einkavæðing bankanna leysti úr læðingi? Eitthvað krem úr dós? Í hvaða Never-Never landi býr Ögmundur eiginlega? 

Ég var sorgmæddur í dag jafnframt því að læra um það hvað bankinn hefur verið að standa sig vel. Maður er ég bar virðingu fyrir, mikla, er nú nakinn fyrir mér sem kjáni af eðalklassa. En er þó ekki í silkifötum eins og "stelpurnar og strákarnir í silkifötunum" í bönkunum. Hvaða banka er hann að tala um? Í hvaða útibúum eru starfsmenn/konur í silkifötum? Og á hann enga hagsmuna að gæta, verandi formaður BSRB?

KB banki borgaði í ár 9 milljarða í samanlagða skatta. Skattar bankans + skattar starfsmanna og tryggingargjöld. Er það ekkert? Er það eitthvað til að reka úr landi? Fyrir utan það hefur bankinn gefið, GEFIÐ, 600 milljónir í styrki fyrir ýmis málefni, aðallega lýknarmál, s.l. 3 ár. Í dag, kl. 4. gaf bankinn 40 milljónir til Krabbameinsfélags Íslands til að kaupa nýja byltingakennda brjóstakrabbameinsleitar vél sem eflir krabbameinsleit kvenna. Þetta vill Ögmundur reka úr landinu til að réttlæta einhvern HELVÍTIS jöfnuð!!!!!!!!! 

Ég hef sagt það áður og segi enn (Ögmundur sannar mín orð enda eðal sósíalisti) : Winston Churchill sagði: "The inherent vice of capitalism is the unequal sharing of blessings; the inherent virtue of socialism is the equal sharing of miseries." sem íslenskast: "Synd kapítalismans er ójöfn dreifing gæða, en synd sósíalismans er jöfn dreifing ömurleika."

Af hverju pirrar það mig að Ögmundur sannar mín orð og Winston Churchill?

Og þetta er maðurinn sem er formaður BSRB!!!!!!!!

P.S. Það er greinilegt að hann Ögmundur hefur nú eitthvað breytt blogginu sínu síðan á laugardaginn, dregið úr þyngd orða sinna. Það eru s.s. fleiri bloggarar af Alþingi, aðrir en Björn Bjarna, sem kunna að breyta sínum texta þegar viðbrögðin eru hörð.

föstudagur, nóvember 03, 2006

Við Elsa fórum í gær á tónleika hjá Sinfóníunni. Þar voru flutt tvö verk, píanókonsert nr. 3 eftir Beethoven og 4. sinfónía Brahms. Hvoru tveggja stórkostleg verk og þótti mér þó meira til píanókonsertsins koma. Víkingur Heiðar Ólafsson, 22ja ára Íslendingur, lék á píanó og ég segi bara eins og vil meina, þetta var fluttningur á heimsmælikvarða. Þvílíkt talent hér á ferð. Enda búinn með BA í Julliard og að klára MA í sama skóla núna.

Manni vöknaði um augun nokkrum sinnum og ég ætla að sjá þennan unga mann spila aftur, það er alveg á hreinu. Hann tók svo tvö encore lög, það seinna eftir Chopin en það fyrra í óvissu. Ætla mér einnig að komast að því.

mánudagur, október 09, 2006

Ég bloggaði fyrir nokkru um hversu mér er illa við framkomu og gjörðir Michael Schumachers. Góður ökumaður, sennilega sá besti, en vantar þetta sem gerir þetta "real", heiðarleika. Fyrir mótið í Suzuka núna um helgina voru þeir Alonzo og Schúmmi orðnir jafnir að stigum en Schúmmi með forystu því að hann var með fleiri sigra. Mér fannst þetta skítt og svo var Schúmmi nr. 2 á ráslínu og Alonzo ekki nema fimmti. Leit ekki vel út.
Mér datt ekki í hug að vakna kl. 4:30 til að sjá Michel vinna þetta og reka næst-síðasta naglann í heimsmeistaratitil sinn. En samt sem áður vaknaði ég kl. 6, alveg óvart, og fann á mér að eitthvað mikið var að gerast. Fór á fætur, nuddaði stýrurnar úr augunum og ræsti imbann. Og viti menn, við mér blasti myndskot af Ferrari bíl Schúmma með ónýta vél, Alonzo fyrstur og með aðra hönd á heimsmeistaratitlinum. Frábært. Nú þarf hann bara að klára dæmið á Imola og Renauld að taka Ferrari í bakaríið. Svona til að sýna það að lið sem er með FIA í vasanum, beitir lúalegum brögðum og siðleysi, vinnur ekki.

Morgunstund gefur gull í mund og létta lund.

mánudagur, október 02, 2006

Hún á afmæl'í dag,
hún á afmæl'í dag.
Hún á afmæl'ún Elsa,
hún á afmæl'í daaaag.

Til hamingju með daginn, elskan!

fimmtudagur, september 28, 2006

Þengill Sigurjónsson á afmæli í dag. Sonur minn er orðinn 2ja ára. Við vöknuðum í morgun, feðgarnir, rétt fyrir kl. 7 og fórum fram. Stuttu síðar vöknuðu þær mæðgur, Elsa og Bríet. Þá var haldið inn í rúm þar sem sunginn var afmælissöngur fyrir Þengil, sem var ekki alveg sáttur við að við skyldum vera að syngja þetta lag. En svo fékk hann gjöf og varð glaður.

Til hamingju Þengill minn með daginn. Elsku labbakúturinn minn.

mánudagur, september 25, 2006

Hver ætli minnsti minnihlutahópurinn sé?
Hugmynd: Lesbískar, svartar, dvergvaxnar konur, ásatrúar, sem eru albínóar, skrolla, eru í hjólastól og stundar tásluklám.

Og hvað eiga samtök fyrir þessa einstaklinga að heita?
Samtök Lesbískra Ásatrúaðra og Fatlaðra Albínóa Dvergkvenna Sem Skrolla og Tásluklæmast?

Og hvernig skammstafar maður slíka nafnagift? SLÁFADSST? Og í daglegu kallaður SLÁFAST? Og svo þegar þessi minnihlutahópur sendir frá sér álitsgerði kemur í fréttum að "formaður SLÁFAST" segir hvað-sem-hún-segir.

Í þessum nýja minnihlutahóp er tekið á öllu sem einkennir minnihlutahópa. Húðlitur, kynhneigð, kynlífspreference, talgalli, trú, fötlun, líkamsstærð. Er ég að gleyma einhverju?

fimmtudagur, september 14, 2006

Við Elsa gengum í hjónaband í Langholtskirkju á laugardaginn síðastliðinn, 9. sept, sem er brúðkaupsafmælisdagur tengdó. Þrátt fyrir rigningarspár og byljandi rigningu um morguninn rættist mjög vel úr veðri og þegar stundin nálgaðist að ég og pabbi skyldum halda í átt að kirkjunni sá ég að það myndi rætast sem ég var búinn að tauta alla vikuna, meir í von en í sannfæringu, að það myndi sko ekkert rigna. Ég græjaði mig heima hjá mömmu og pabba á meðan að Elsa fór í kjólinn og allt það heima hjá okkur. Svo fór ég í kirkjuna og beið við altarið á meðan vinir og vandamenn streymdu inn. Við pabbi stóðum þarna og hneigðum okkur fyrir þeim er virtu okkur viðlits (furðulegt hvað fáir vita af þessum sið). Síðan kom mín verðandi eiginkona í kirkjuna rétt yfir kl. 4 og athöfnin hófst. Þvílík upplifun! Elsa var/er/verður glæsileg og Bríet stóð sig vel sem brúðarmær. Athöfnin var frábær og einlæg. Bríet og Þengill settu sinn svip á athöfnina og tónlistaratriði Kittu/Sindra og Ásgeirs/Harðar voru frábær. Ég gleymi því aldrei. Síðan var haldið út í brúðarbílinn (lánsbíl frá Heklu, nýjann Audi A6 með öllu) og haldið niður í Grasagarðinn í myndartöku hjá Sissu ljósmyndara. Þar var einnig frábær stund hjá okkur nýgiftu hjónunum á frábærum stað.
Síðan var haldið í veisluna á hótel Nordica, með smá stoppi í Berjarima, og þar biðu veislugestir eftir okkur með miklum fögnuði. Það var frábær stund að ganga þarna inn og hitta alla sína vini og ættingja sem bíða eftir að fagna með okkur Elsu þessum frábæra degi.
Veislan byrjaði fljótt og var strax augljóst að við höfðum valið vel með Nordica. Starfsfólkið stóð sig rosalega vel, öll aðstaða og umgjörð var frábær og stemmningin sem myndaðist þarna var alveg frábær. Ræður, skemmtiatriði, maturinn, hljómsveitin Vítamín. Allt var frábært og við Elsa nutum svo gestrisni Nordica í svítu frá þeim yfir nóttina.
Þetta var frábær dagur, ekkert klikkaði og það var frábært að njóta slíks unaðsdagar af þessu frábæra tilefni með sínum nánustu.
Ég set inn myndir á ljósmyndaalbúminu mínu fljótlega.

laugardagur, september 09, 2006

Brúðkaup í dag

Kæri lesandi. Í dag munum við Elsa ganga að eiga hvort anna. Ég hlakka svoooo til og er að stelast til að skrifa þetta hérna því það er sko nóg að gera ennþá.
Myndir munu verða birtar á heimasíðu minni, www.sigurjon.net við fyrsta tækifæri. Einnig er hægt að fylgjast betur með þessum viðburð og aðdraganda hans á www.brudkaup.biz.

sunnudagur, september 03, 2006

Elsa var gæsuð um daginn, ég var steggjaður í gær :) Í fyrradag fékk ég fundarboð í vinnunni um að fara í franska sendiráðið með yfirmönnum mínum og ræða við sendiráðsstarfsmenn um netbankann okkar í KB banka. Og mig grunaði ekki neitt að eitthvað væri bogið við þetta. Síðan kom Sigurgeir, vinnufélagi minn og vinur, til mín í vinnunni og sagði að hann og Brynjar færu á fundinn einnig og þá fóru viðvörunarbjöllur að glyma. "Það er eitthvað bogið við þetta, á nú að steggja mig" hugsaði ég með mér. En í hádegismatnum spjölluðum við Danni um fundinn og þá var ég eiginlega sannfærður um að raunverulegan fund væri að ræða. Svo var farið á fundinn á Bimmanum hans Brynjars og þegar í sendiráðið kom stóð föngulegur hópur vina minna og vandamanna á bílastæðinu fyrir utan. Þar voru staddir Friðgeir bróðir, Tóti frændi, Þorfinnur, Sigurjón Atli, Jóngeir, Sindri mágur, og Rúnar. Nú átti að steggja mig.

Fyrsti áfangastaður var í Heiðmörk rétt við Rauðhóla. Þar var farið í M-16 og farið í fullorðins byssó. Þar var rosalega gaman allt þar til Tóti frændi fótbrotnaði. Hann var að gera árás á flaggið
liðsins míns, steig á dautt tré sem lá við mig, festi fótinn í greinunum, féll á mig og fótbrotnaði. Það var hringt á sjúkrabíl og Tóti fór með honum á slysó. Við heyrðum í honum seinna (reyndar nokkrum sinnum) og hann fór í aðgerð á fætinum um kvöldið til að laga brotið. S.s. það réðst á mig maður í fullum herklæðum og hann vaknaði daginn eftir á gjörgæslu :)

M-16 var leikið af miklum móð og skemmtum við okkur konunglega. Síðan þegar sá leikur var búinn var farið af stað í átt að Jósefsdal í gryfjuna þar. Þar mætti Þorfinnur með enduro-hjólið sitt og ég fékk að spreyta mig á krossarafærni minni, sem er orðin ryðguð og stirð af 15 ára vanrækslu. Ég þeysti á fáki fráum um brautina þar til mér var gefið merki um að hætta. Þá hélt ég í hlaðið enda uppgefinn. Svitinn var svo mikill að meira að segja nærbuxurnar mínar voru gegndrepa af svita, hvað þá hjálmurinn og allur gallinn.

Eftir mótorhjólaþeys var haldið í sundlaug Grafarvogs og farið í sund. Ég fékk þó ekki sundskýlu heldur sundbol, takk fyrir! Eins og það væri einhver hindrun. Steggjunarmeistarar áttuðu sig ekki á því að þeir voru að steggja stegg sem hafði klætt í slíkan bol áður (af illri nauðsyn). Ég fór bara í neðri helminginn og hagræddi honum þannig að bolurinn leit út eins og skýla. Síðan var farið í pottinn og tvær bunur í rennibrautinni. Þar var skorað á mig að fara í bolinn alveg og ég varð við því. Maður verður jú að taka þátt í þessu :)

Eftir sundlaugarferð var farið heim til Valda og þar var byrjað að sturta í sig og pantaðar pizzur. PAAAAAAARRRTÍÍÍÍÍÍÍ! Þungarokki blastað í botni. Anthrax, Slipknot, Metallica, Slayer. Og 10 sek. af Britney Spears upp á jókið. Ég skemmti mér vel, svo vel að ég endaði á því að faðma keramikið og leggjast í sófann. Síðan var mér skutlað heim í leigubíl og Þorfinnur fylgdi mér inn, svona til að tryggja það að ég færi alla leið heim, 100%. Strákarnir héldu svo áfram djamminu í bænum í einhvern tíma.

Ég vill þakka fyrir mig, þessi steggjum var frábær og sýndi mér hvað ég á góða vini.

fimmtudagur, ágúst 24, 2006

Svona menn á að svifta prófinu strax og þar til þeir verða 21 árs í fyrsta lagi. Þeir hafa greinilega ekki þroska til að keyra bíl og vera í umferðinni þar sem þroskaleysi þeirra líka veldur dauða og hörmungum á hverju ári.

Þeir eru einfaldlega umhverfi sínu hættulegir.

mánudagur, ágúst 21, 2006

Maður er að fylgjast með Supernova þessa dagana, nema hvað (enda rokkari í húð og hár). Og að mínu mati eru þau þrjú sem eru best. Dilana, Magni og Lucas Rossi. Og svo er maður að bera saman Magna og Lucas og þá er heppilegt að hafa séð þá báða flytja Creep með Radiohead. Og eftir að hafa hlustað á þetta nokkrum sinnum þá verð ég að segja að ég er ekki alveg viss um hvor gerir þetta betur. Magni syngur lagið betur, "hittir" lagið betur en Lucas kannski túlkar það betur því ég fæ allavega gæsahúð þegar hann tekur það.

I feel conflicted about this.
Nýtt myndaalbúm komið inn. Myndir eru frá sumarfríi okkar fjölskyldunnar og smá frá fiskideginum mikla á Dalvík.

miðvikudagur, ágúst 09, 2006

Fyrir þá sem ekki vita það þá vorum við Elsa að opna brúðkaupsvefinn okkar á www.brudkaup.biz.
Sumarfríið kom og fór. Það var yndislegt. Það byrjaði þann 12. júlí þar sem ég flaug til Egilsstaða til að hitta fjölskylduna, Elsu og börnin, sem var komin þangað helgina áður. Síðan var haldið af stað á Bakkafjörð, nánar tiltekið á Dalhús í Bakkafirði. Þar vorum við í viku ásamt tengdó og Sigrúnu og Halla. SASarinn, Jóney og Tómas hittu okkur svo þar þann 18. og við héldum þann 19. til Egilsstaða. Þar var gist eina nótt, farið í Kárahnjúka daginn eftir viðkomu í Skriðuklaustri og svo haldið til Akureyrar. Gistum í tvo daga hjá Sigrúnu og Halla og héldum síðan til Reykjavíkur. Við vorum í bænum í nokkra daga og fórum síðan á Laugarvatn, í bústaðinn hennar ömmu, og vorum þar í nokkra daga. Þar var smá brúnka móttekin í frábæru veðri í tvo daga.
Síðan farið í bæinn og verslunarmannahelgin leið nokkuð sársaukalaust. Við Elsa fórum í brúðkaup Jóngeirs og Dísu og það var frábær viðburður, yndisleg athöfn og svo rosa djamm.

fimmtudagur, júní 29, 2006

Lækjarbrekka, þar sem tíminn stendur í stað

Við Elsa fórum í hádegismat saman í dag í fyrsta sinn eftir að námi lauk hjá henni. Við fórum á Lækjarbrekku og fengum þar ágætis mat. En þetta var einstök lífsreynsla. Klukkan var um hádegi þegar við fórum inn og þar tók ég eftir því að klukka sú, er mælir tímann á Lækjarbrekku, stöðvaðist á hádegi. Tíminn stoppaði þarna. Þetta var furðuleg lífsreynsla, sérstaklega fyrir þær sakir að ekkert óvenjulegt gerðist. Lífið hélt áfram sinn vanagang í þessu tímaleysi þarna inni.

Síðan lukum við mat okkar, borguðum og fórum út. Þegar út var komið var mér litið á armbandsúr mitt og viti menn, tíminn var aftur farinn af stað og var meira að segja kominn langt yfir hádegi. Þannig að tímalega séð var eins og þetta hefði aldrei gerst. Atburðurinn var algerlega einangraður við Lækjabrekku.

Nú þarf ég aftur á móti að fara að díla við þennan tvífara minn sem varð til við þetta. Gaurinn er nákvæmlega eins og ég nema hvað að hann hagar sér eins og hann hafi fæðst í dag, man ekkert, og svo talar hann aftur-á-bak. Það verður gaman að útskýra þetta fyrir fjölskyldu minni. Að ég eigi núna tvífara/burabróður sem man ekkert sem gerðist fyrir hádegi 29.06.2006 og ekki er hægt að tala við nema aftur-á-bak (eða að maður skilji sjálfur aftur-á-bak).

mánudagur, júní 26, 2006

Ég er algerlega búinn að missa allt álit á Michael Schumacher eftir atvikið í Mónakó þar sem hann lagði bílnum í síðustu beygjunni til að enginn gæti bætt tíma hans í tímatökum, sem þá var sá besti. Þessi álitsmissir minn á sér aðdraganda. 1994 keyrði Schumacher á Damon Hill og við það varð Hill ekki heimsmeistari heldur Schumacher. 1997 keyrði Schumacher viljandi á Villeneuve til að reyna að hindra hann í að taka fram úr sér og þar með vinna heimsmeistaratitilinn af Schumacher.
Og núna um daginn lagði hann bílnum í Mónakó.

Maðurinn kann að keyra, því er ekki að neita. Hann er jafnvel sá besti í heimi í dag. En ef það er enginn heiður, engin æra á bak við þetta þá er betra heima setið en af stað farið. Ef maðurinn getur ekki setið undir því að aðrir vinni hann á heiðarlegan máta og beitir slíkum brögðum sem ég hef talið hér upp þá á hann bara að hætta að kalla sig íþróttamann.

þriðjudagur, júní 13, 2006

Ég lenti í ógurlegum veikindum í síðustu viku. Var með 40 stiga hita í tvo daga og er ennþá að ná mér. Þengill var nýbúinn að vera með sama hita, greyið litla. Hann var þó hugrakkur og duglegur, og er núna kominn á tveggja vikna pensilínkúr til að laga skaðann eftir þau veikindi.

Einnig kom það í ljós að við urðum að rifta kauptilboði okkar í Garðsstaði. Handvömm af hálfu fasteignasalans olli því að ekki var hægt að fá lán út á húsnæðið, og hann má því eiga heiðurinn að öllu því klúðri. Lesandi góður, ef þú einhvern tíma þarft að eiga viðskipti við Draumahús, hafðu varann á.

Ég fékk mér þó annað. Jeppa, Toyota Land Cruiser, breyttan á 35" dekkjum og alles. Virkilega skemmtilegur bíll. Nú verður farið að jeppast á fullu.

Nú, svo líkur í kvöld námskeiði í svifvængjum, sem ég skráði mig í. Þetta er svakalega gaman og eitthvað sem ég á eftir að leggja fyrir mig. Að fljúga.

föstudagur, júní 02, 2006

Bríet á afmæli í dag, 4ja ára!

Litla steplan mín, Bríet prinsessa af Berjarima, á afmæli í dag. Hún er 4ja ára. Hún fagnar afmælinu sínu í dag í látleysi en afmælisveislan verður keyrð síðar. Dagsetningin er þó í óvissu.

Dúllan mín er þó lasin í dag, var allt í einu komin með hita í gærkvöldi. Þannig að ekki verður fagnað afmæli í leikskólanum í dag. Það verður að bíða.

þriðjudagur, maí 23, 2006

Við Elsa fórum á Da Vinci lykilinn á sunnudaginn sl. Fín ræma. Ég var búinn að plana þetta, átti að vera óvænt ferð. Hringdi í Friðgeir bróðir og bað hann um að passa. Ég hélt að ég hefði komið því til skila að þetta væri surprise ferð. En svo kom Friðgeir heim kl. 7:30 til að passa og sagði "Hæ" og svo "Hvenær byrjar myndin". Og þar með vissi Elsa hvað til stóð :) og hún hló vel. Ég hafði s.s. EKKI komið því til skila að þetta væri leyniferð.

Jæja, þetta tekst bara næst.

mánudagur, maí 22, 2006

Hallgrímur Helgason er orðinn leiðinleg, rispuð plata

Ég las "Þetta er allt að koma" eftir Hallgrím Helgason af mikilli áfergju á sínum tíma og hló afskaplega mikið og lengi að þeirri bók. "101 Reykjavík" einnig. Svo kom "Höfundur Íslands" og þar hló ég ekki mikið, enda ekki þannig bók, og hef reyndar ekki klárað hana. Ekki "Herra Alheimur" heldur, hef ekki klárað hana ennþá (segir það ekki ýmislegt um bók, ef maður nennir ekki að klára hana?).
Síðan boðaði konungur Íslands, DAO, hann á teppið, og spurði hvað honum gengi til með öllum þessum greinum sem hann hefði verið að birta og hreita ónotum í kónginn. Og eftir það hefur Hallgrímur verið eins og einhver tuðandi nöldurskjóða um leið og hann opnar munninn. Tuðið er vel orðað, því er ekki að neita, en tuð engu að síður.
Svo fór konan hans í framboð fyrir Samfylkinguna í Reykjavík og síðan þá hefur tuðið ágerst og nær nú nýjum lægðum í grein hans á Visir.is og þá sennilega í Fréttablaðinu líka.
Hvað er að manninum? Hann er algerlega obsessed í hatri sínu á stjórn landsins og Sjálfstæðisflokknum sérstaklega. Og algerlega hættur að vera skemmtilegur og beittur, bara með bitlaust, vel orðað, tuð.
Ég ætla þó að klára bækurnar hans, Herra Alheim sérstaklega.

laugardagur, maí 20, 2006

Tekið af vef Björns Inga.
Nú er það svo, að ég er sannfærður um að Framsóknarflokkurinn á enn mikið inni miðað við kannanir. Í Reykjavík ber könnunum ekki saman og ég veit til þess að Framsóknarflokkurinn hefur verið að mælast með mun meira fylgi undanfarna daga, en það sem hann mælist með í könnun Fréttablaðsins í dag. En það er morgunljóst, að verði úrslit sveitarstjórnarkosninganna með þeim hætti, að Framsóknarflokkurinn tapi miklu fylgi vegna þess að verið sé að refsa ríkisstjórninni og Sjálfstæðisflokkurinn bæti heldur við sig, að slíkt muni hafa mikil áhrif á ríkisstjórnarsamstarfið. Framsóknarmenn munu ekki sitja undir því að standa einir í vörn fyrir verk ríkisstjórnarinnar meðan samstarfsflokkurinn hleypur í stjórnarandstöðu í umdeildum málum í miðri kosningabaráttu.
Það er gaman og súrt að fylgjast með brösugu gengi framsóknarmanna þessa dagana. Og Björn Ingi er ekki að gera sig í kosningabaráttunni. Hann byrjar á Lönguskerjum, sem svo kemur í ljós að eru ekki í lögsögu Reykjavíkur og er verða verndaðar fljótlega. Síðan fer hann í það að velta því upp að ef að OR selur hlut sinn í Landsvirkjun muni andvirðið fara til borgaranna. Búinn að gleyma því að andvirðið er eyrnarmerkt lífeyrisgreiðslum borgarinnar.
Nú hleypur hann upp og hótar veseni í landspólitíkinni ef XB fær ekki fylgi. Og segir það sem er hér að ofan.
Er maðurinn blindur? Það eru búnir að vera tveir stórir skandalar undanfarið þar sem Framsóknarmenn voru teknir með höndina í kexkrukkunni. Halldór Ásgeirsson átti hlut í fyrirtæki sem átti hlut í fyrirtæki sem keypti stórann hlut í Búnaðarbankanum þegar hann var einkavæddur. Einnig var aðkoma Framsóknarmanna í þeirri einkavæðingu, Finnur Ingólfsson hinn siðlausi, þar fremstur í flokki. Keyptu bankann á hæpnum forsendum og fengu VÍS selt úr Landsbankanum rétt áður en Björgúlfsfeðgar keyptu þann banka. And the list goes on and on...
Og svo hótar Björn Ingi Sjálfstæðisflokkinum. Veit hann ekki að fólkið í landinu er bara búið að fá nóg af þessum afætum sem hanga í kringum Framsókn? Það er mikið að góðu fólki meðlimir í flokknum en það ágæta fólk er bara í skugga hrægamma á borð við Finn Ingólfsson. Og Framsókn missir fylgi þar af leiðandi. Björn, líttu þér nær...

miðvikudagur, maí 10, 2006

Við Elsa vorum að bjóða í íbúð, fengum gagntilboð, sem við gerðum gagntilboð á móti og fengum gagntilboð á það sem við tókum. Garðsstaðir 47 takk fyrir. Laust strax. S.s. við erum bráðum að flytja úr Berjarima 36 í Garðsstaði 47. Jibbí. Massa flott íbúð, æðislegt útsýni, flottur pallur með heitum pott. og.... leiktæki handa börnunum í garðinum. Sniiiiiiiiiiiiild.
Myndir eru hér

mánudagur, apríl 24, 2006

Ég átti 35 ára afmæli á föstudaginn sl. 21. apríl. Sem ég fagnaði með því að bjóða mínum nánustu í grill og með því. Og með því að veikjast þann dag. Ágætis dagur. En hún Elsa mín kom mér veeeel á óvart. Hún gaf mér í afmælisgjöf ferð til Amsterdam í enda júlí á Rolling Stones tónleika. Vííííííí.

þriðjudagur, apríl 18, 2006

Skv. fréttum af forsýningum Da Vinci lykilsins er myndin í "uppnámi" vegna þess að amerískir áhorfendur voru ekki ánægðir með hárið á Tom Hanks í myndinni.
Tom Hanks er gersamlega frábær leikari sem maður hefur séð fara á kostum í Cast Away, Forrest Gump, The Ladykillers, Joe Versus the Volcano, Saving Private Ryan, The Terminal og fleiri og fleiri. Nú er mér spurn: gerðu áhorfendur í forsýningu engar athugasemdir við t.d. skeggið í Cast Away, heimskuna í Forrest Gump, snobbið og hrokann í The Ladykillers, hreiminn í The Terminal? Er það eina sem bandarískir áhorfendur hafa áhyggjur af jafn grunnt og hárgreiðsla aðalhetjunnar?

Hver segir svo að það megi ekki vanmeta bandarísku þjóðina...

mánudagur, apríl 10, 2006

Það virðist sem að Andríkið fari létt með það, trekk í trekk, að benda á hræsnina í málflutningi þingmanna stjórnarandstöðunnar. Nú síðast varðandi tvö frumvörp Ágústs Ólafar Ágústssonar, varaformanns Samfylkingarinnar, til verndar heimildarmönnum.

sunnudagur, apríl 09, 2006

Að eigna sér heiðurinn að gjörðum annarra

Skv. nýjustu fréttum stendur til að lækka vsk af mat á næsta ári. Það sem ég hugleiddi þegar ég las þetta var hversu langt mundi líða þar til stjórnarandstaðan væri að eigna sér heiðurinn, eða hluta af honum, af þessum lækkunum. Og það stóð ekki á því, sá fyrsti sem ég heyrði í af stjórnarandstöðunni sem tjáði sig um þessa lækkun sagði í annari setningu sem hann sagði að þetta væri nú nokkuð sem Samfylkingin væri búin að tala um í doldinn tíma. Eins og það skipti einhverju máli. Það var hann Össur Skarphéðinsson í Kastljósinu.

Þessi ríkisstjórn var búin að minnast á þessa nálgun í skattalækkunum fyrir nokkru síðan, það er ekki bara Samfylkingin sem hefur talað um þetta. En á það minntist Össur ekki. Það var eins og hann væri að reyna að láta líta út fyrir að það væri Samfylkingunni að hluta að þakka að þetta væri að fara í gang núna. En það er ekki svo, Samfó er í stjórnarandstöðu og er tannlaus nöldurtuðra á meðan svo er. Þannig liggur nú bara í því.

Það breytir því ekki þó að Össur hefur verið betri og beittari en áður eftir að hann tapaði fyrir svilkonu sinni Ingibjörgu Sólrúnu í slagum um formannssætið í Samfylkingunni. Össur blómstrar núna sem aldrei áður en fylgið við Samfó hrynur af þeim undir forrystu ISG, Pandóru.

Þetta er win/win staða. Samfylkingin veikist mikið á sama tíma og við getum notið þess að hlusta og lesa Össur blómstra og brillera.

föstudagur, apríl 07, 2006

Boolean maybe

Jæja, þá setti ég loksins niður á "blað" hugleiðingar mínar um boolean maybe.

BlaðurDagur

Stundum rekst maður á ummæli sem reka mann í rogastans eins og ummæli Dags B. Eggertssonar. Dagur er um margt ágætismaður held ég og hefur gert margt gott og vel (hann er þó doldið mikið froðusnakkur, ekki satt?). En eitt af því er EKKI framboð og úthlutun lóða undir einbýlishús í Reykjavík. En samt leyfir hann sér að segja eftirfarandi um þessa úthlutun:
"Við stóðum mjög dyggan vörð um það að enginn gæti hamstrað, að hver einstaklingur fengi aðeins eina lóð," segir Dagur. "Þeir sem buðu í margar lóðir fengu aðeins eina. Nú gefst tíu nýjum fjölskyldum færi á að koma yfir sig þaki þarna."

Í sjálfu sér er þetta rétt og satt. En að þau hafi staðið "mjög dyggan vörð" um að enginn gæti hamstrað er orðum (stór)aukið. Klúður og slökkvistarf og okur á lóðum er það sem stendur uppúr í þessari úthlutun.

fimmtudagur, apríl 06, 2006

Af Baugsmálinu og kokkun bókhalds

Eftir að hafa lesið yfir þessa nýju ákæruliði í Baugsmálinu stendur einn uppúr sem alvarlegastur að mínu mati. Það er liður III.
"Forstjóri Baugs hf. er ákærður í sjö liðum fyrir meiri háttar bókhaldsbrot og brot gegn hlutafélagalögum með því að hafa rangfært bókhalds Baugs hf. á árunum 2000 og 2001 með tilhæfulausum tekjufærslum, sem höfðu áhrif á afkomutölur félagsins eins og þær birtust í ársreikningum og árshlutareikningum og með því að láta senda tilkynningar um afkomu félagsins, sem m.a. byggðust á þessum röngu færslum, til Verðbréfaþings Íslands. Þetta var m.a. gert í þeim tilgangi að skapa rangar hugmyndir um hag hlutafélags og hafa áhrif á sölu eða söluverð hluta í félaginu."

Jón Ásgeir skýrir það sem svo að KPMG hafi uppáskrifað ársreikninga alla tíð. Mér finnst hálf skondin svör Jóns Ásgeirs við þessu.
"Bókhald Baugs Group hf. hefur verið endurskoðað af KPMG frá stofnun félagsins. Ársreikningar félagsins hafa verið undirritaðir athugasemdalaust allt frá upphafi. Efnahagsreikningur félagsins hefur alla tíð endurspeglað rétta og raunverulega stöðu félagsins. Þegar gert var yfirtökutilboð í hlutabréf Baugs Group og félagið skráð af markaði hér á landi, gerðu hvorki kaupendur né seljendur hlutabréfanna athugasemdir við yfirtökutilboðið þess efnis að efnahagur félagsins væri annar en hann var sýndur í bókhaldi þess. Áhugavert er að velta því fyrir sér hverjir hafi verið endanlegir þolendur þess ef verðmat hlutafjár Baugs var of hátt vegna þess að reikningarnir hafi gefið of bjarta mynd af stöðu félagsins."

Já, hann spyr að því hverjir hafi verið þolendur. Enda von, menn hafa greinilega ekkert lært af málum eins og Enron og WorldCom, þar sem æðstu stjórnendur kokkuðu bókhaldið til að fegra gengi fyrirtækjana. Fyrirtækja sem fóru svo á hausinn og skildu eftir sviðna jörð og tóma lífeyrissjóði þúsunda manna. Jón sennilega veit vel hverjir eru þolendur í þeim málum. Ársreikningar WorldCom og Enron voru uppáskrifaðir líka.

Það skiptir ekki máli að Baugur fór ekki á hausinn. Það sem skiptir máli er að sumir virðast ekki kunna að höndla frelsi á markaði með almenningshlutafélög og haga sér eins og fífl með fé almennra hluthafa (skv. ákærunum). Og hver er þolandi slíkra gjörða? Almennir hluthafar í félögum á íslenskum markaði.

Þegar Enron og WorldCom málin urðu lýðnum ljós í USA lækkuðu hlutabréfamarkaðir í Bandaríkjunum mikið og eru enn ekki búnir að jafna sig. Ástæða: Vantrú á heillindi stjórnenda. Ef Jón Ásgeir hefur gert þetta, að kokka bókhaldið, getur það skapað vantrú á hlutabréfamarkað hérlendis líka. Við höfum séð undanfarna daga hvað smá vantrú á getu bankanna hefur orsakað í gengi bréfa og á hlutabréfamarkaði hérlendis.

Hverjir eru þá þolendur þegar markaðir taka dýfur? Tja, t.d. lífeyrissjóðirnir, stærstu hluthafanir á almennum hlutabréfamarkaði. Spariféð okkar, ekkert minna. Almennir hluthafar, fólk eins og ég og þú.

Já, það er von að Jón Ásgeir spyrji hver þolandinn sé þegar/ef hann kokkar til bókhald Baugs.

mánudagur, apríl 03, 2006

Forrest Gump: "Stubid is what stubit is related to"

Að því sögðu, þá er gaman að horfa á snjóinn kyngja niður núna á fullu. Ég setti bílinn minn á sumardekkin í gær :)
Idol keppnin er að komast á lokastig og á föstudaginn datt Bríet Sunna út. Þó ég beri smá tilfinningar til hennar vegna þess að hún er nafna dóttur minnar (Bríet) og hún syngur vel, þá sýndi hún af sér einstakt dómgreindarleysi og einstaka smekkleysu þegar hún valdi síðara lagið sitt. "You're beautiful" eftir James Fucking Blunt. ÖMURLEGT LAG EFTIR ÖMURLEGAN TÓN"LISTAR"MANN!!! Í Idol keppninni, þegar þrír keppendur eru eftir, og einn dettur út, þá velur maður ekki James Fucking Blunt lag til að syngja. Maður velur slíkt reyndar aldrei yfir höfuð ef manni er annt um þá sem hlusta á.

Ína tók langið "Since you´ve been gone" eftir Kelly Clarkson, rokkað/pönkað lag, kraftmikið og flott. Hún tók áhættu með þessu en hjá mér fær hún stórt respect. Hún er greinilega rokkari í hjarta sínu, og slík hjörtu eru ávalt fögur og lifandi.

laugardagur, apríl 01, 2006

Það er afskaplega sorglegt í raun, en á sama tíma ætti ekki að koma á óvart, að sjá hvað Frakkar eru sjálfum sér verstir þegar kemur að atvinnumálum. Ég tek svooooo undir orð Þórlinds Kjartanssonar (Hetjuleg barátta fyrir atvinnuleysi) um mótmæli franskra stúdenta og verkalýðsfélaga gegn umbótum í vinnumarkaðsmálum ungs fólks.

Eitt af því sem stuðlar að atvinnuleysi eru hömlur og kvaðir á fyrirtækin. Eitt raunverulegt dæmi t.d. í Frakklandi voru lögin sem skilgreindu vinnuvikuna sem 35 tíma vinnuviku. Það var sagt að með því að fækka tímum starfsmanna í vinnuni (fyrir sömu laun að sjálfsögðu) væri verið að skapa þörf fyrir aukningu starfa. Þetta klikkaði algerlega. Vinnuni var bara troðið á færri tíma. Og það er tvennt sem Þýskaland og Frakkland eiga sameiginlegt. Það er mikið atvinnuleysi og miklar kvaðir á fyrirtæki varðandi starfsmenn.

Þessi mótmæli sem hafa staðið gegn aðgerðum stjórnvalda minna mig á þegar Daewoo varð gjaldþrota
í nóvember 2000. Þá var fyrirtækið í viðræðum við lánadrottna um endurfjármögnun. Lánadrottnar sögðu "við láunum ykkur ef þið segið upp 20.000 starfsmönnum af 220.000". Verkalýðsfélögin í Kóreu sögðu nei við þessu og þar með var Daewoo lýst gjaldþrota. 220.000 manns misstu vinnuna í stað 20.000.

Þetta eru fótsporin sem Frakkar fara í aftur og aftur. Þetta hryggir mig því ég bjó jú þarna í rúmlega 5 ár. En þetta er aðal vandamál Frakka, þeir eru svo miklir sósíalistar. Það er í sál þeirra. Og eins og Churchill sagði þá er glæpur kapítalismans ójöfn dreifing gæða en glæpur sósíalismans jöfn dreifing ömurleikans. Þetta er alltaf að sanna sig, aftur og aftur.

mánudagur, mars 27, 2006

Upp og niður Esjuna

Jæja, þá er kannski kominn neisti í fjallafíkn mína aftur. Maður þrammaði upp ófá fjöllin í frönsku Ölpunum hér áður fyrr með bakboka og ég dýrkaði þá iðju. Með árunum hafa þó hnén farið að versna og fyrir nokkur ákvað ég að hætta öllu svona, sérstaklega hlaupum, til að hlífa hnjánum enda komið slit í þau og verkir.

En hnén hafa verið til friðs undanfarið ár og okkur SAS-aranum datt í hug að skreppa upp Esjuna í gær. Sem við og gerðum. Það var kalt (-2 C°) og rok (12m/sek) en við fórum upp samt. Og ég í það minnsta komst að því enn eina ferðina að líkamlegt form mitt er ekki eins og það var fyrir fimm árum þegar ég var nýkominn heim úr frönsku Útlendingaherdeildinni og hljóp upp Esjuna án þess að blása úr nös. Nei, núna voru skrefin þung rétt áður en við komumst alla leið upp, þung af þreytu. En hnén héldu á niðurleiðinni og eru ekki að hrjá mig þessa stundina. Þannig að kannski get ég, með smá þjálfun og vinnu, farið upp á Hvannadalshnjúk í maí með SAS og spúsu hans. Ég hef svosum farið upp slíkar hæðir áður, mesta uppferð um 2000 m og hæsta hæð yfir sjávarmáli 3330 m. Það eina sem yrði nýtt við þetta er að klífa upp jökul í jafn langann tíma og jafn langa leið.

En hei, ég get allt sem ég ætla mér.

föstudagur, mars 24, 2006

Idol Rokkar... NOT

Ég er að horfa á Idol núna og keppnin er tvískipt, tvær umferðir, sitthvort þemað. Og í því fyrra var rokkþema. En! Fyrsta lagið var I wanna be with somebody eftir Whitney Houston og það næsta var eftir Michael Jackson (reyndar orginal í fluttningi Jackson Five, það gamalt), síðan kom You where always on my mind eftir Prestley og svo síðast Sweet child of mine eftir Guns'n'Roses.

Þetta var eins og að horfa á alla nema einn drekka vatn í kókdrykkjukeppni. Hvað í fjandanum hefur Whitney Houston að gera í rokkþema? Eða Jackson five? Ég var búinn að hlakka til að hlusta á þau spreyta sig á rokkinu og svo kemur þetta puff? Fjandinn hafi það, þetta er lélegt eins og lélegt getur orðið. Rokklega séð...

Seinni umferðin var í countryþema. Og allir voru á réttu róli þar, country. Af hverju gátu þau ekki skotið Jackson Five eða Whitney Houston inn í country þemað?

sunnudagur, mars 19, 2006

Nú er maður orðinn hluthafi í fyrirtæki

Jæja, þá er helgin að líða og ég tek eftir því að ég hef ekki bloggað í langan tíma. En hvað um það, á föstudaginn gengum við Elsa á samt vinarhjónum okkar frá kaupsamningi á fyrirtæki, Ábendi ehf. Þetta er ráðningarfyrirtæki og við stefnum hátt með það. Jeeehaaaawwww.

sunnudagur, febrúar 26, 2006

Hvað eiga Maximus og Ghandi sameignilegt?

Svarið er: Ég.

Ég tók annað persónuleikapróf á netinu um hvaða frægi leiðtogi ég væri og endaði sem Ghandi. Alger snilld. Ghandi er að sjálfsögðu sýndur mikill heiður með þessu.

Ghandi að sjálfsögðu hefur fundið sér viðeigandi lífsförunaut.

föstudagur, febrúar 24, 2006

Ég, Maximus

Jæja, eftir að hafa lesið bloggið á JónGroup ákvað ég að athuga hvernig mínar ofurhetjuhneigðir liggja. Og þær eru eftirfarandi:


You scored as Maximus. After his family was murdered by the evil emperor Commodus, the great Roman general Maximus went into hiding to avoid Commodus's assassins. He became a gladiator, hoping to dominate the colosseum in order to one day get the chance of killing Commodus. Maximus is valiant, courageous, and dedicated. He wants nothing more than the chance to avenge his family, but his temper often gets the better of him.



Maximus



71%

Indiana Jones


67%

James Bond, Agent 007


63%

The Terminator


58%

William Wallace


58%

Batman, the Dark Knight


46%

Neo, the "One"


46%

Lara Croft


46%

The Amazing Spider-Man


38%

Captain Jack Sparrow


38%

El Zorro


25%

Which Action Hero Would You Be? v. 2.0
created with QuizFarm.com

mánudagur, febrúar 20, 2006

Menntamálaráðherra stefnir á styttingu á námi til stúdentsprófs. Og þessu eru flestir kennarar mótfallnir miðað við síðustu fréttir. Þá fer maður að velta fyrir sér af hverju. Í Finnlandi byrja börn skólagöngu sjö (7) ára og ljúka stúdentsprófi 19 ára. Finnst kennurum þetta bara eðlilegur munur? Tvö ár sem tekur íslensk börn að ljúka svo gott sem sama námi? Þess fyrir utan virðst námsárangur finnskra barna vera betri, þau standa sig betur í t.d. í stærðfræði.

Nú veit ég að flestir kennarar eru metnaðarfullir og vilja standa sig vel. Þess vegna er ég undrandi á þessari afstöðu að vera á móti þessum breytingum Menntamálaráðuneytisins.

laugardagur, febrúar 18, 2006

Þetta er alltaf að verða betra og betra með lóðarúthlutanirnar. Skv. fréttum í Fréttablaðinu var einn maður, Benedikt Jósepsson, sem átti hæsta tilboð í allar einbýlishúsalóðir nema eina. Hann fékk s.s. 39 af 40 lóðum. Er það svona fyrirkomulag sem R-listinn ætlar að hafa í úthlutunum lóða í Nýju Reykjavík?

Ég segi bara "Bravó". Svona á að sko að braska með lóðir. R-listinn er greinilega að útskrifast í fasteignabraskinu núna. Og ef markmiðið með útboðinu var að úthluta lóðum til fjölskyldufólks sem vill byggja sitt eigið hús þá er R-listinn gersamlega úti að aka í þessu máli. Sem kemur svosum ekkert á óvart í sjálfu sér.

þriðjudagur, febrúar 14, 2006

Þengill fór í bað í fyrradag. Sem er svosum ekkert nýtt og það sem hann gerði þar var heldur ekkert nýtt. Drengur bara lorraði í baðið. Hann var nýkominn ofaní, og ég við hliðina á honum, þegar ég merkti rembing í svip hans. Og undan honum komu tveir brúnir baðkarahákarlar, illa lyktandi. Þengill var tekinn úr baðinu strax, lorrarnir veiddir úr og settir í sinn eðlilega farveg. Síðan tók við sótthreinsun á baði og leikföngum sem í baðinu voru. Rosa gaman.

Þetta er í annað skipti sem hann gerir þetta, síðast fékk hann að leika aðeins með lorrana áður en það uppgvötvaðist hvað hann hafði gert.

Bríet aftur á móti skrifaði nafnið sitt og Lailu systur í gærkvöldi, án aðstoðar. Hún er 3 ½ ára.

Já, það er misjafnt sem þau systkinin aðhafast.

mánudagur, febrúar 13, 2006

Af Ali og Óla grís

Tekið af internetinu:
"Í sambandi við skopmyndamálið: Til skamms tíma, ef ekki ennþá, blasti við ferðamönnum sem komu til landsins gríðarstórt skilti í nágrenni Hafnarfjarðar, þar sem sjá mátti höfuð á svíni og áletrunina Ali grís. Hjá shíítum stendur tengdasonur Múhameðs, Ali, honum næstur að virðingu, og geta má nærri hversu mjög það hefur sært og stuðað ferðamenn frá t. d. Íran að sjá nafn Alis tengt svínshöfði. í rauninni er með ólíkindum að þetta skuli ekki hafa skaðað samskipti Íslendinga og shííta.
Til að koma í veg fyrir misskilning benti grandvar maður á, hversu ráðlegt væri að breyta nafninu á þessu fyrirtæki. Til dæmis mætti mála yfir stafinn A í Ali og setja Ó í hans stað."

þriðjudagur, febrúar 07, 2006

Ég horfði á mynd sem ég er búinn að geyma að horfa á nokkra daga. Munich eftir Steven Spielberg. Frábær mynd sem ég mæli með. Þetta er ekki grínmynd né fjölskyldudrama heldur hápólitísk ádeila á keðjuverkun og vítahring endalausra hefnda stríðandi fylkinga. Ekki skemmir að myndin er mjög vel gerð. Vel skrifuð, vel leikin, góð leikmynd og kvikmyndatakan frábær.
Á nokkrum dögum hef ég horft á tvær myndir sem sitja í mér og ég hugsa um aftur og aftur. Það er Munich og Syriana. Tvær frábærar, langar og góðar myndir. Báðar eiga þær það sameiginlegt að þær eru um sjálfsrýni kvikmyndaleikstjóra, þeir eru að gagnrýna sitt eigið þjóðfélag, sitt fólk.

Á kvikmyndir.is er hægt að lesa góða gagnrýni um Munich.

laugardagur, febrúar 04, 2006

Draumurinn of dýr

Mig hefur lengi dreymt um að byggja hús, þak yfir höfuðið, fyrir fjöskylduna. Sérstaklega hefur þessi möguleiki orðið meira fýsilegri með hækkandi húsnæðisverði. Í stað þess að kaupa 220 fm hús á 40 millur þá byggja það sjálfur fyrir um 30 millur total. Nú er að hefjast útboð lóða við Úlfarsárdal og útboðsgögn er að finna hér. Borgin er að bjóða lóðir til einstaklinga, ekki lögaðila. S.s. fyrir Jón og Gunnu, ekki eitthvað ehf. En hvað er borgin að fara fram á?

Fyrir íbúðarhúsnæði er lágmarkstilboð 10.5 millur. Fyrir parhús 11 millur samtals (5,5 hvor íbúð). Þetta er lágmarkstilboð. Mér er misboðið svo ekki sé meira sagt. Fyrir ekki svo löngu síðan voru boðnar út lóðir í Breiðholti á 3,6 lóðin. Mér sýnist sem svo að það borgi sig bara alls ekki að byggja sjálfur. Borgin er að spenna svo upp húsnæðisverð enn eina ferðina með þessum fáránlegu verðkröfum að það er ekki fyrir neinn nema sterkefnaðan að bjóða í.
Nú nýverið var Mosfellsbær að bjóða út lóðir í Krikahverfi og einbýlislóðin var þar á föstu verði, ekki hæsta boð, og verðið var frá 6,9 til 9,9.
Þetta er enn ein ástæðan fyrir því að vera illa við R-Listann. Gott mál að þessi helv. kommahelvíti eru að fara frá. Geta ekki fengið nóg að blóðmjólka borgaranna.

Það er í sjálfu sér ekkert kommúnískt að taka hæsta tilboði. En er það hér hlutverk borgarinnar að takmarka framboð lóða í langann tíma, skv. samkomulagi við fasteignafélag, til að sprengja svo upp lóðaverð og græða massa mikið af þessu? Ég er svona barnalegur að trúa því að stjórnvöld séu hér til að þjóna borgurunum en ekki græða á þeim. Ég meina, þeir sem byggja þarna koma til með að borga lögboðin fasteignagjöld það sem eftir er.

Skv. LÁGMARKSVERÐI verða greiðslur til borgarinnar eftirfarandi:
Einbíli: 40 lóðir, 420 milljónir.
Parhús: 43 lóðir, 473 milljónir.
Raðhús: 13 lóðir, 312 milljónir rúmlega.
Fjölbýli: 24 lóðir, 872 milljónir tæplega.
Samtals gerir þetta 2.076.975.000. Og þetta eru ekki lokatölur heldur lægsta tilboð.
Finnst engum þetta too much nema mér kannski?

Ef þetta á að vera það sem koma skal í Reykjavík þá held ég leggi á hilluna alla drauma um að byggja. Það er ekki þess virði, ávinningurinn er of lítill. Maður á eftir að búa þá í hráu hverfi án þjónustu í einhver ár, ófrágengnu húsi, ófrágengin lóð, keyra börnin í skólann til að byrja með því enginn skóli verður í hverfinu og svo framvegis. Þess fyrir utan að vinna í húsinu dag og nótt í X tíma.

laugardagur, janúar 28, 2006

Ég horfði á mynd í gærkvöldi sem heitir Syriana og satt best að segja hafði hún mikil áhrif á mig. Í fyrsta lagi hef ég aldrei haft svo mikið álit á George Clooney en þarna fór hann á kostum, frábær leikur.
Í annan stað fjallar myndin um afskipti og áhrif Bandaríkjanna (og annarra ríkja) ásamt stórfyritækjum á framgang lýðræðis í ríkjum þar sem viðskiptahagsmunir eru miklir.
Þessi mynd situr í mér. Hún er góð, vel leikin, vel tekin, vel skrifuð og bendir á mikilvægt málefni.

miðvikudagur, janúar 18, 2006

Stofna á skemmti- og fræðasetur á sviði vísinda og tækni með samstarfi einhverja háskóla. Maður nokkur, Valdimar Össurarson, ferðaþjónustumaður í Villingaholtshreppi í Flóa á Suðurlandi, segir að hann hafi unnið að mjög líkri hugmynd í hartnær þrjú ár og kynnt þá hugmynd fyrir einmitt Ara Ólafssyni, forsvarsmanni þessa nýja framtaks og dósent í eðlisfræði, sem og öðrum aðilum að hinu svo sjálfkallaða háskólasamfélagi. Þetta nýja framtak var í engu með samráði við Valdimar.

Mig grunar að þarna sé á ferð menntahroki. Að þetta svokallaða "háskólasamfélag" ætlar að koma á fót n.k. skemmti- og fræðslumiðstöð (af hverju er allt kallað setur í þessu "háskólasamfélagi"?), sem var hugmynd Valdimars, en vegna þess að hann er ekki í elítunni þá er gengið framhjá frumkvæði hans.

Það er alltaf gaman að heyra háskólakennara og starfsmenn háskólanna tala um sjálfa sig og háskólana. Mjög oft mætti halda af orðum og tali þeirra að sólin sé ekki miðja alheimsins heldur háskólarnir. Sjálfsumgleðin alveg að fara með þetta lið.

föstudagur, janúar 13, 2006

Top 20 things likely to be overheard if you had a Klingon Programmer:

Rakst á þennan klassíska brandara fyrir forritara/Trekkara eða forritara+Trekkara.

  1. Defensive programming? Never! Klingon programs are always on the offense. Yes, offensive programming is what we do best.
  2. Specifications are for the weak and timid!
  3. This machine is GAGH! I need dual Pentium processors if I am to do battle with this code!
  4. You cannot really appreciate Dilbert unless you've read it in the original Klingon.
  5. Indentation?! - I will show you how to indent when I indent your skull!
  6. What is this talk of 'release'? Klingons do not make software 'releases'. Our software 'escapes' leaving a bloody trail of designers and quality assurance people in its wake.
  7. Klingon function calls do not have 'parameters' - they have 'arguments' -- and they ALWAYS WIN THEM.
  8. Debugging? Klingons do not debug. Our software does not coddle the weak. Bugs are good for building character in the user.
  9. I have challenged the entire ISO-9000 quality assurance team to a Bat-Leth contest on the holodeck. They will not concern us again.
  10. A TRUE Klingon Warrior does not comment his code!
  11. By filing this bug report you have challenged the honor of my family. Prepare to die!
  12. You question the worthiness of my code? I should kill you where you stand!
  13. Our users will know fear and cower before our software! Ship it! Ship it and let them flee like the dogs they are!
  14. Our competitors are without honor!
  15. Python? That is for children. A Klingon Warrior uses only machine code, keyed in on the front panel switches in raw binary.
  16. Klingon programs don't do accountancy. For that, you need a Ferengi.
  17. Klingon multitasking systems do not support "time-sharing". When a Klingon program wants to run, it challenges the scheduler in hand-to-hand combat and owns the machine.
  18. Perhaps it IS a good day to die! I say we ship it!
  19. My program has just dumped Stova Core!
  20. Behold, the keyboard of Kalis! The greatest Klingon code warrior that ever lived!

þriðjudagur, janúar 10, 2006

Um daginn voru haldnir tónleikar gegn stóriðju og virkjunum. Og til verndar náttúrunnar. Stórtónleikar. Ætli þeir hafi verið órafmagnaðir?

Og hey, gleðilegt nýtt ár.

miðvikudagur, janúar 04, 2006

Ég trúði varla eigin augum þegar ég opnaði Fréttablaðið í morgun. Þar var birt nafn mannsins sem lést í Kólumbíu við svifvængjaflug. Hann hét Rúnar V. Jensson og starfaði í Háskólanum í Reykjavík sem kerfisstjóri.

Mér hlotnaðist sá heiður að kynnast Rúnari þegar ég var nemandi í tölvunarfræði í Háskólanum í Reykjavík. Hann var frábær kerfisstjóri og var allur af vilja gerður við að aðstoða nemendur og starfsfólk háskólans. Hann var alltaf hlýlegur og brosmildur og snöggur til við að aðstoða.

Ég votta fjölskyldu hans og vinum mínar innilegustu samúðarkveðjur. Rúnar var drengur góður og hans verður sárt saknað.

sunnudagur, janúar 01, 2006

Gleðilegt nýtt ár

Ég vill óska landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs og þakka þau liðnu. Við fjölskyldan eyddum áramótunum á Akureyri há Sigrúnu, systur Elsu, og fjölskyldu hennar. Virkilega gaman.