miðvikudagur, desember 21, 2005

Skv. fréttum mbl.is hafa Charlize Theron, Angelina Jolie og Scarlett Johansson sagt nei við því hlutverki að verða næsta Bond-stúlka (hvað sem það nú er). Ætli það sé vegna þess að þær vilja ekki vera í hlutverki þar sem þær leika stúlkukindur sem kikna í hnjánum við hverja hreyfingu 007 og segja "Oh James" í annarri hverri setningu? S.s. ósjálfbjarga konur sem bíða eftir hetjunni til að bjarga sér?

Mikið óx álit mitt á þessum þrem leikkonum við að lesa þetta.

sunnudagur, desember 18, 2005

Skattmann heimtar skatt af því sem við fáum í styrki, íþróttastyrki t.d. Um daginn voru haldnir tónleikar þar sem KB banki, Synfóníuhljómsveit Íslands og Forseti Íslands buðu fólki. Skattmann ætlar að rannsaka hvort að boðsgestir séu skattskyldir af því.

Ætli maður verði að telja jólagjafirnar fram til skatts? Hvar endar græðgi skattmanns? Hvenær í ósköpunum ætlar skattmann að skilja það að við eigum laun okkar og gjafir sjálf fyrst, ekki skattmann.

Nú eru stéttafélögin að íhuga að hætta að styrkja fólk til íþrótta, þökk sé fégræðgi og yfirgangs skattmanns. Ég vona að hann fái reglulega hiksta á 10,5 á Richter.

miðvikudagur, desember 14, 2005

Jæja, þá er www.sigurjon.net kominn upp aftur eftir crash. "Ber er hver að vefþjóni nema sér backup eigi" segi ég bara. Allt er eins og það var, 0% data loss, 100% data recovery. Hjúkkit.

þriðjudagur, desember 13, 2005

Þjónninn sem hýsir hinn vefinn minn krassaði í gær. Þetta er eldgömul dolla sem ég keypti 1999 og var með 450 MHz örgjörva sem ég skipti út seinna fyrir heil 650 MHz. Kom heim í gær og hafði ekki náð sambandi við vélina allann daginn. Fór upp á háaloft (þar sem hún er) og allt var svart á skjánum. Endurræsti og fékk skilaboðin "NTLDT is missing". Eftir tveggja tíma lífgunartilraunir eftir forskrift Microsoft komst læknirinn (ég) að niðurstöðu. Sjúklingurinn (dollan) var dáinn. Þá var ekkert um annað að ræða en að forsníða diskinn og gefa henni lifnivið pillu í formi enduruppsetningu.
Öll gögn voru að sjálfsögðu óendurheimtanleg af diskinum og farinn til binary himna. Þá er gott, og sá er siður, að eiga HELVÍTIS BACKUP AF ÖLLU DRASLINU!!!! ... sem ég átti að sjálfsögðu ;)

laugardagur, desember 10, 2005

Barnalegi borgarstjórinn

Mér hefur fundist hún Steinunn Valdís Óskarsdóttir hafa staðið sig ágætlega sem borgarstjóri hingað til. Og tilefni samnings borgarinnar við starfsmenn sína núna, þar sem sumir eru hækkaðir um 30% í launum á þrem árum. er ágætt. Góð hugsun og vel viljandi. En að sama skapi sýnir hún (og hennar samstarfsmenn er að samningnum komu) af sér ótrúlegan barnaskap. Alveg hreint ótrúlegan. Að halda það í eina sekúndu að önnur hagsmunasamtök launþega munu sitja þegjandi yfir þessu.
Stéttarfélög eru nefnilega eins og lítil börn á leikskóla stundum að einu leyti (nema hvað ekki alveg jafn yndisleg). Ef einn fær þá vilja allir líka. Ef eitt stéttarfélag fær háa launahækkun þá vilja hin það líka. Skiptir þá engu um hvaða ástæður liggja þar að baki. Þess vegna eru “leiðréttingar á kjörum” svona erfiðar.

Borgin gerði örlátan samning við starfsmenn sína. Núna kemur hvert stéttafélagið á fætur öðru og vill endurskoðun kjarasamninga. Leikskólakennarar (KÍ), starfsmenn Hafnafjarðarbæjar. Fleiri munu koma. Þessu vöruðu Samtök Atvinnulífsins við og bæjarstjóri Kópavogs. Og Steinunn er hissa og fúl? Og gengur út af fundi í fússi? Vááááá!

Ef Steinunn var með svona háleit markmið handa kvennastéttum og láglaunastéttum þá er það fínt og virðingarvert. En slík stökk eru betur tekin í nokkrum skrefum en í einu stóru. Annað er óþoskaður barnaskapur. Kennarar fengu að finna fyrir því í síðustu kjarasamningum þegar þeir vildu fá "leiðréttingu" sína.

Segjum sem svo að leikskólakennarar fái “leiðréttingu” á sínum kjörum í samræmi við það sem ófaglærðir starfsmenn leikskólanna fengu núna. Heldur Steinunn að önnur aðildafélög kennara í KÍ muni ekki krefjast álíka “leiðréttingar” í næstu kjarasamningum kennara? Góðir landsmenn: Ég spái “leiðréttingarkennaraverkfalli” þegar samningar KÍ renna út. Þökk sé að hluta R-listanum.

þriðjudagur, desember 06, 2005

Í kjólinn fyrir jólin.

Nú ætla ég að útskýra af hverju ég hef verið svona skapvondur síðustu tvær vikur. Ég er s.s. í megrun. Neeei grín, ég er ekkert búinn að vera skapverri (nýyrði) en vanarlega en ég er þó í átaki. Svokölluðum dönskum kúr. Alger snilld. Byrjaði í honum fyrir tveim vikum síðan og er núna búinn að missa/losa mig við þrjú kíló og beltið er ekki lengur að hrjá mig. Buxurnar ekki heldur. Ég ætla að halda áfram í þessu fram yfir jól og sjá hvort að six-pakkið hætti að vera feimið og komi út að leika, svona eins og í gamla daga.
Þessi kúr er alger snilld. Maður borðar vel, bara minna og betur en maður gerði. Og árangurinn skilar sér strax.
Reyndar var smá setback um daginn. Við Elsa fórum í jólahlaðborð Upplýsinga- og tæknisviðs KB banka (þar sem ég vinn) og ég missti mig alveg, maturinn var svoooooo góður. Dádýrakjötið (mamma hans Bamba) var þó best. Alger snilld. En afleiðingin var þó sú að ég fór aftur á byrjunarreit, eða jók þyngd mína um 1,5 kg.
Það eina við þennan kúr sem ég fíla ekki er að maður getur ekki leyft sér að borða mikið eins og maður gerði. Ég hef lengi verið kallaður ruslafatan, því í stað þess að sjá fram á að þurfa að henda leifunum þá hef ég klárað allan mat. Rosa duglegur að borða. Þetta var í lagi þegar ég var tvítugur og svo þegar ég var í frönsku Útlendingaherdeildinni (og tvö ár eftir það) því þá var maður að hreyfa sig svo mikið. Hlaupa, klífa fjöll, armbeygjur og annað sem brennir kaloríur. En svo eignast maður unnustu og börn með henni, fer í háskóla ofan í allt saman og hefur ekki lengur mikinn tíma til að hreyfa sig. Þá fer fitupúkinn að núa saman höndunum og setur nokkur kíló á mann í formi fitu. Og burt fara kíló í formi vöðva. Þannig er nú það.
En nú er það að verða búið. Danmörk hefur fundið upp aðferð til að svæla út þennan fitupúka og ég nýt góðs af því.
Annars bendi ég bara á hana Sigrúnu Þöll ef menn/konur vilja kynna sér þetta danska megrunartól betur.

sunnudagur, desember 04, 2005

Sarah Reinertsen hetja


Ég dáist mikið af fólki sem yfirstígur risastórar hindranir, stígur fram af ákveðni og einurð og afrekar eitthvað sem gerir það að hetjum. Alvöru hetjum, ekki svona feel-good titill eins og að allir sem taka þátt í Reykjarvíkurmaraþoni fá verðlaunapening.
Ein af þessum manneskjum er Sara Reinertsen. Hún missti sjö ára annann fótlegginn fyrir ofan hné en var um daginn að koma í mark í Ironman Kona (Hawai) keppninni. Fyrsta konan sem afrekar það.
Ég veit ekki hvort allir átta sig á því afreki sem það er, útaf fyrir sig, að ljúka slíkri keppni. Það er byrjað á því að synda 7 km, síðan hjólað 180 km og síðast hlaupið heilt maraþon. Allt án þess að stoppa á milli (nema til að skipta um föt og búnað). Þetta er gífurleg þraut, andleg og líkamleg, og Sarah var fyrsta konan með gerfilim til að ljúka keppni. Það hefur einn maður einnig lokið keppni, það var fyrir 20 árum.
Sarah er núna komin á hetjulistann minn ásamt Emil Zapotek, Rósu Parks, Alvin York, Lance Armstrong og Joe Simpson.

laugardagur, desember 03, 2005

Í sögunni um Öskubusku, uppáhalds sögu dóttur minnar, er köttur sem heitir Lúsifer. Ég er ekki viss um hvað á að halda um þessa nafnagift. Er verið að segja eitthvað um köttinn með því að láta hann heita Lúsifer?
Lúsifer er hinn vondi. En hann var einu sinni engill. Var með kjaft við Guð og féll af himnum niður til heljar og hefur ríkt þar æ síðan. Ég var að velta því fyrir mér hvort að hægt sé að búa til teiknimynd um þá sögu?

föstudagur, desember 02, 2005

Franskir vínbændur hafa greinilega skilið allt sem er að vita um frjálsa samkeppni á markaði. Og gripið til akkúrat réttra aðgerða.

fimmtudagur, desember 01, 2005

Mbl.is segir frá því í morgun að farþegafjöldi í Strætó hafi dregist saman um 6-8% milli ára. Samt er alltaf verið að hamra á því af ýmsum sjálfskipuðum spekúlöntum (sérstaklega þeim sem vilja þétta byggð) að nota almennnings samgöngur.

Sko, þetta segir bara eitt. Fólk KÝS að nota bílinn frekar en strætó. Þetta kallar á uppbyggingu samgöngumannvirkja í Reykjavík og nágrennis. Annað, fólk KÝS að búa í sérbýli ef það getur (par-, rað- og einbýli). Þetta kallar á auknar lóðaúthlutanir fyrir einbýlishús.

Ég veit að við Sjálfstæðismenn komumst loks til valda í næstu kosningum og þá fara þessi mál að komast í rétt horf. Loksins.