miðvikudagur, febrúar 14, 2007

Grasekkill dagur 11

Við Þengill stóðum í heilsufarslegum stórræðum í gær. Um hádegisbilið sá ég að hiti Lasarusar var ekkert að lækka og hann var enn með magakveisu og leist þar af leiðandi ekkert á blikuna lengur. Nú væri fokið í flest skjól og því kominn tími á að fara og spyrja sérfræðinganna, læknanna. Við fórum í opinn tíma hjá heilsugæslunni hér í Grafarvogi kl. 4. Læknirinn hélt að þetta væri bara flensan og sá ekkert frekara að dreng og var að búa sig undir það að senda okkur heim. Þá útskýrði ég betur fyrir honum að þetta væri nú fimmti dagurinn sem hann væri veikur og þetta væri ekkert í rénun. Þá kom svipur á lækninn, sem heitir Atli, og hann ákvað að senda okkur niður á bráðamóttöku Landspítalans. Ekkert urgent en þar fer fram greining á t.d. lungnabólgu, sem nú var orðinn grunaður valdur að hitanum. Við Þengill fórum þangað og gutti var með háan hita. Við komumst að og hiti var mældur. 40°C. Stíll med det samme.


Síðan kom læknir og skoðaði Lasarus og gat ekki enn komið með afdráttalausa sjúkdómsgreiningu. Blóðprufu þyrfti til (svipaða og sykursjúkir gera, dropi kreistur úr fingurgómi) til að greina betur líkur á lungnabólgu. Prufa var tekin með þar til gerðri skotnál og kreysti og ekki kveinkaði Þengill sér. Kannski var hann skotinn í hjúkkunni...

Síðan var okkur vísað yfir á röngendeild og þar tóku við okkur röngentæknarnir Tinna og Guðrún. Þær tóku röngenmynd af Þengli og gáfu honum uppblásinn latex hanska með andiliti teiknuðu á sem verðlaun.

Þengill var kátur mjög sem og þær stöllur. Við snérum síðan við aftur yfir á Barnadeild Hringsins og biðum niðurstaðna þar. Þar var okkur tilkynnt af deildarlækni þar að Þengill væri kominn með "sæmilega" lungnabólgu (hún skilgreindi ekki "sæmilega" neitt frekar) og sagði mér að hann fengi sýklalyf. Voila. Þá var það komið. Ég þakkaði fyrir mig og hönd Þengils og hélt heim á leið með viðkomu í apóteki að ná í lyfið, sem heitir einhverju nafni sem ég get aldrei munað.

Fyrir utan það að komast að því að Þengill væri með lungnabólgu tók ég eftir tvennu öðru í þessari heimsókn á spítalann.
  1. Það er greinilega í gangi eitthvað alþjóðlegt samsæri með að nefna lyf nöfnum sem enginn getur munað nema einhverjir starfsmenn heilbrigðiskerfisins. Ekki svartur almenningur og tölvunarfræðingar eins og ég. Samt man maður nöfn á fullt af klasasöfnum í .NET frameworkinu. Skrítið.
  2. Ég er greinilega farinn að eldast. Deildarlæknirinn var slatta yngri en ég og veit ég þó að á bak við starf hennar er mikið nám sem tekur mörg ár.
Í dag vaknaði Þengill kl. rúmlega 10, hitalaus og hóstalaus.

þriðjudagur, febrúar 13, 2007

Grasekkill dagur 10

Jæja, tíundi dagurinn runninn upp án Elsu. Við söknum hennar mikið, öll sömul, en huggum okkur við það að hún kemur heim eftir þrjá daga. Þessi dagur hófst á því að tekið var hitastig Lasarusar og viti menn, hann var enn með 38,6°C. Sem sagt, enn veikur. Mamma renndi við hérna kl. 8 til að fara með Bríeti í leikskólann fyrir mig. Reddaði mér alveg þar. Við Þengill fórum bara að dunda okkur hérna. Bubbi byggir er núna í sjónvarpinu og Þengill er að fylgjast með honum með öðru auganu jafnhliða því að hann situr við borðið og litar.

Ég blogga bara og hlusta á Rush.

Sósíalísk meðöl í S-Ameríku

Það hafa komið ýmsar fréttir frá Venesúela undanfarið varðandi Hugo Chavez. Hann er kominn með vald til að stjórna með tilskipunum svo hann geti látið framkvæma eitt kosningaloforð sitt, þjóðnýtingu orkufyrirtækja og fjarskiptafyrirtækja. Í dag kom frétt í Fréttablaðinu um að hann muni koma með í vikunni tilskipun sem gefur honum vald til að stjórna matvæladreifingunni. Ástæðan er skortur á matvælum. Ástæðan fyrir skortinum er verðstjórnun ríkisins, að sögn samtaka iðnaðarins. S.s. það á að koma á ríkismarkaðslögum til að bæta úr afleiðingum annarra ríkismarkaðslaga.

Sko, þetta er farið að líta skuggalega út eins og svo margar sósíalískar tilraunir sem yfirleitt hafa endað með ósköpum hjá þeim þetta átti að hjálpa upphaflega, almenningi. Sjáum t.d. Mugabe í Zimbabwe, þar sem aðgerðir á borð við aðgerðir Chavez hafa m.a. skilað því að atvinnuleysi er 80%, verðbólga er 1600% og efnahagur landsins er svo gott sem ónýtur. Samt var ekki langt síðan að þetta land var með þeim farsælustu í Afríku hvað lífsgæði varðaði.

Það ömurlegasta við þetta allt saman er að vinstri menn hérlendis hæla Chavez mikið og þykir mikið til hans koma. Sennilega vegna þess að hann er sósíalisti, eins og þeir, sem og að hann er horn í síðu Bush. S.s. óvinur óvinar míns er vinur minn. Svona eins og t.d. Saddam Hussein var vinur USA þar til hann réðst inn í Kuwait.

Ég veðja krónu hér með að þessar "efnahagsaðgerðir" Chavez beri ekki annan ávöxt en að auka enn á vanda Venezuela. Eftir 5-7 ár verður lýðnum ljóst hvað sósíalisminn í rauninni gerir ekki annað en a dreifa jafnt örbigð og ömurleika yfir alla.

mánudagur, febrúar 12, 2007

Grasekkill dagur 9

Við vöknuðum í morgun kl 8 til að Bríet færi í leikskólann. Þengill var enn með hita, 39,8°C og ég því ekkert á leiðinni í vinnuna. Mamma fór með Bríeti á leikskólann og sækir hann svo á eftir.

Við feðgarnir erum bara búnir að chilla í morgun, ég að vinna í verkefnum sem ég er með fyrir utan vinnu og Þengill að horfa á barnó eða leika sér. Svo núna rétt í þessu var hann við hliðina á mér í sófanum. Hann lá á bakinu, lesandi kynningarbækling frá Smáralind. Mjög spekingslegur. En Smáralind er margt til lista lagt því augnlok kauða byrjuðu að síga, oooooofur hægt. Sigu.... sigu.... sigu..... Bæklingurinn seig jafnframt ofurhægt aftur á bak, ofurhægt..... ofurhægt.... og Þengill sofnaði.
Ég trítlaði inn í svefnherbergi þeirra barna, fann þar tvær litlar sængur og setti aðra ofan á Þengil, hina til að dúða hann vel.

Þetta er svooo sætt.

[PS. 13:55]
Þengill vaknaði aftur, ég hélt á honum inn í rúm og hann hélt áfram sínum svefni þar. Úrvinda Lasarus.

sunnudagur, febrúar 11, 2007

Grasekkill dagur 8

Jæja, Lasarus er enn hérna hjá okkur. Þengill er lasinn, með hita og niðurgang en er þó hættur að kasta upp. Bríet gisti hjá mömmu aðfaranótt föstudags og fór heim til vinkonu sinnar Salnýjar Kaju og gisti þar svo sl. nótt. Hún fór síðan í leikfimi í morgun með þeim og kom svo heim rétt fyrir hádegi. Ég tók saman dót fyrir hana í gær til að hafa hjá Salnýju, og að sjálfsögðu gleymdi ég "smáatriðum" eins og náttfötum og tannbursta. Leikfimisfötin fann ég reyndar ekki.

Mér sýnist sem að allt líti út fyrir að Þengill verði veikur á morgun. Hann er í rosalegum sveiflum í þessum veikindum sínum og þær virðast halda sig við lyfin, s.s. Parasupp stíla.

Mér er farið að leiðast að vera fastur svona heima og Þengill örugglega líka. Ég bara vona að þessum veikindum fari að linna.

föstudagur, febrúar 09, 2007

Grasekkill dagur 6

Jæja, Þengill er orðinn lasinn. Ég fór með Bríeti og Þengil í leikskólann í morgun og allt í góðu. Fór svo í vinnuna en viti menn, 1 ½ tíma síðar hringir síminn, Fífurimi on the line. Ég svara og fæ þær fregnir að Þengill sé kominn með tæplega 40°C hita. Ég s.s. bruna í Fífuborg og næ í lasarus. Nú erum við heima feðgarnir. Þengill að chilla og ég að blogga stuttlega. Bríet er í leikskólanum og veit ekki af framvindu mála.

[kl. 22:00]
Jæja, stubbur farinn að sofa. Og Bríet er hjá mömmu og gistir þar í nótt. Ég er að vonast til þess að með því verði henni bjargað frá smiti. Þengill er búinn að vera í rosalegum sveiflum í dag. Fór að sofa rétt fyrir hádegi og svaf til uþb. kl. 16:30. Eins og rotaður. Friðgeir bróðir kom í heimsókn kl 13 eftir smá víking í Englandi þar sem hann heimsótti Agga. Friðgeir fór kl. 18 og ég eldaði mat handa okkur feðgunum. Þengill vildi ekkert borða og fór að lokum í sófann. Ég kláraði minn mat og gekk frá en tók svo eftir því að Þengill var orðin frekar slappur. Ég ákvað þá að mæla pilt og viti menn, hitinn hafði rokið upp í tæpar 40°C. Ég fór strax að leita að Parasupp stílum en fann enga. Fann þó Panodil og muldi niður hálfa (ráðlagðan skammt skv. leiðbeiningum), blandaði í eplasafa, setti í sprautu og gaf honum. Og viti menn, eftir 15 mín. var hann orðinn aftur fjörugur og líflegur.

Hann er núna farinn að sofa og ég fer að halla mér fljótlega líka.

Breiðarvíkumálið er núna mikið á döfinni. Ungir drengir sendir á einangrað sveitabýli til að þola andlegt og líkamlegt ofbeldi og kynferðislega misnotkun. Allt í umsjá og að frumkvæði ríkis og sveitarfélaga. Menn spyrja sig að því hvernig þetta gat gerst og hvað eigi að gera til að bæta úr þessu máli. Sumir segja fébætur, aðrir sjálfræðiaðstoð. Kröfur um afsökunarbeiðni hafa heyrst einnig. Það eru allt góðar og gildar kröfur.

Birgismálið er einnig á döfinni. Mikið rætt um það líka. Brotnar sálir leyta á náðir Sáluhjálpara sem reynist ekki svo heilagur. Misnotkun trausts, BDSM, starfsmenn sem barna skjólstæðinga, misnotkun á almannafé og listinn er langur. Aðalmaður þessa máls, Guðmundur Jónsson hefur nú verið kærður margsinnis fyrir þetta og meira er á leiðinni.

Fyrra málið gerðist á árunum 1964-1970, seinna málið gerist á samtíma okkar. 40 ár á milli. Það er þó einn samnefnari í þessum málum.

Það vantaði töluvert uppá eftirlit með starfsemi þessara stofnanna og þegar eitthvað gruggugt kom upp á yfirborðið, þá var því stungið undir stól, málið þaggað niður, ekkert gert í viðvörunum eða þær stimplaðar "trúnaðarmál". Af þeim sem báru ábyrgð á þessu máli. Glæsilegt, ekki satt?

Nú spyr ég, hvað á að gera í Breiðarvíkurmálinu? Aðstoð fyrir þolendur, algerlega. En það á ekki að stöðva þar. Mistök eru til að læra af þeim, ekki satt? Það má því draga þá ályktun að ekki hafi neinn lært neitt af Breiðarvíkurmálinu, og öðrum svipuðum málum á undan því, fyrst að Byrgið var rekið eins og Breiðarvík. Án eftirlits og óþægilegum orðrómum og skýrslum stungið undir stól, þögn.

Og ef þetta er mynstrið í meðferð okkar minnsta og veikasta bróður, og menn læra ekki neitt af því þegar mynstrið brotnar með hvelli, þá á þetta eftir að gerast aftur og aftur.

Sem sagt, við eigum eftir að vera að slökkva elda í stað þess að vera með það góða brunavörn að engir eldar kvikkna.

Höfum við efni á því? Hefur okkar minnsti og veikasti bróðir efni á því? Viljum við horfa á svona mál eftir 10 ár aftur? Og aftur spyrja okkur "Hvernig gat þetta gerst"? Og aftur tala um hvernig á að bæta þolendum þjáningarnar? Eftir að þau hafa dottið í brunnin? Hvernig væri því að staldra núna við og koma því þannig fyrir að brunnurinn sé birgður svo okkar minnsti bróðir falli ekki þar ofaní.

fimmtudagur, febrúar 08, 2007

Það er fullt að gera í vinnunni. Svo kom stund milli stríða og ég fór að lesa einhver blogg. Og rakst þá á þetta blogg eftir Vilhjálm Örn Vilhjálmsson. Og er nokkuð sorgmæddur fyrir vikið. Varúð, lesturinn veldur hryggð.

Ég ætla að faðma börnin mín extra fast í kvöld. Og lengi.

miðvikudagur, febrúar 07, 2007

Grasekkill dagur 2-3

Jæja, ævintýri okkar halda áfram í Berjarima 36, íbúð 204. Þengill er kominn með kvef og hósta, Svo gott er kvefið hans að í morgun, í bílnum á leið í leikskólann, hnerraði ungi herrann og vitandi það að hann væri kvefaður snéri ég mér við í bílstjórasætinu og leit aftur í. Og viti menn, úr báðum nösum lá grænt, djúsí hor, svo langt að það náði úr nösum niður fyrir munn og hálfa leið yfir hökuna. Ég snaraði mér í hasti út úr bílnum, opnaði dyrnar hjá Þengli sem var svo hissa á þessum hnerra, og afleiðingum hans, að hann horfði á mig koma með skelfingu í augum yfir horinu, og aðdáum í augum yfir gífurlegri snerpu föður síns, og tók því fagnandi þegar ég kom með mína fingur og þurrkaði horið framan af drengnum og "skolaði því af mér" í snjónum úti. Skrítið hvað maður verður ónæmur fyrir kúki, pissi, ælu og hori þegar maður er orðinn tveggja barna faðir.

Bríet er bara alltaf jafn yndisleg. Say no more.

Við Elsa eigum tvo bíla, VW Passat station og Volvo 240 GL '87. Ég er vanalega á Volvonum en Elsa á Passat. Nema hvað að í fjarveru Elsu er ég á Passatinum. Og á mánudagskveld ákvað ég að þvo Passatinn í bílageymslunni hjá mömmu og pabba, enda var hann orðinn æði skítugur. Nema hvað, ekkert merkilegt með það annað en að daginn eftir var frost mikið úti og hurðalæsingar ekki alveg að spila með. Þ.e. dyrnar opnuðust en vildu ekki lokast aftur. Þetta var bagalegt um morguninn þegar átti að fara með kjúklingana tvo í leikskólann. Þá var brugðið á það ráð að ræsa Passat, miðstöð í botn, börn og faðir fóru í leikskólann í Volvo, síðan snéri faðir aftur í Berjarima og hafði þá Passat hitnað nóg til að hægt var að loka afturhurð bílstjórameginn. En bílstjórahurðin neitaði enn staðfastlega að lokast (-5° úti). Og hafði faðir ákveðið að fara með Passat í bílageymslu Kbaupþings til upphitunar. Og þegar faðir ákveður eitthvað þá er það sko ákveðið. Þannig að ég keyrði Passatinn í vinnuna með aðra hönd á hurð, hélt fast, og hina í því að stýra og skipta um gíra. Þetta fór bara vel og hurðin lokaðist loks að sjálfu sér þegar ég var alveg að komast í Ármúlann.
Svo náði ég bara í börnin til mömmu og pabba eftir vinnu og fór heim. Afísaði frystihólfið í ísskápnum, lék við börnin og fíflaðist, setti Þengil í rúmið, horfði á sjónvarpið og fór að sofa.

Já, alveg rétt, kvöldið sem ég þvoði Passatinn þvoði ég börnin líka, s.s. setti þau í bað og þvoði hátt og lágt. Rosa gaman. Nema hvað að ég var nýbúinn að þurrka Þengill (og sendi hann fram berrassaðann) og var að sinna því að ganga frá baðinu, kemur ekki stubbalingur hlaupandi fram fyrir baðherbergið, bendandi inn í herbergið sitt og hrópandi "Gúgu, gúgu". Já, sá stutti hafði bara tekið sig til og lorrað einum stórum á gólfið í herberginu á þeirri einu mínútu sem hafði liðið frá því að hann kom uppúr baðinu.

Afreksmaður á ferð þarna! Held að þetta sé met í Berjarima í því að kúka á gólf á sem stystum tíma eftir að hafa komið uppúr baði. Halda svona áfram Þengill.

mánudagur, febrúar 05, 2007

Grasekkill

Jæja, þá komið að því. Kona mín, Elsa megabeib af International klassa, er farin til Hollands á námskeið í tvær vikur. Við börnin erum heima á meðan og berjumst við daglegan hversdagsleika án hennar. Hún fór út í gærmorgun en við náðum að meika fyrsta daginn án hennar.
Það kom þó smá bakslag í gærkvöldi þegar Bríet sagðist sakna mömmu sinnar þegar hún fór að sofa. Komu tár og grátur. Við ákváðum að hringja í Elsu og Bríet fékk að bjóða góða nótt. Ég veit þó ekki hvort að þetta var góð hugmynd að gera þetta, því tárin héldu áfram eftir að á var lagt.

Sjáum til hvernig gengur í kvöld. "Sjálfstæðis"maðurinn Þengill aftur á móti böðlaðist áfram í gegnum daginn án þess að spyrja um mömmu. Hann þarf engann, ekki mig, ekki mömmu sína, engann. Sjálfstæður. Tveggja ára.