fimmtudagur, apríl 06, 2006

Af Baugsmálinu og kokkun bókhalds

Eftir að hafa lesið yfir þessa nýju ákæruliði í Baugsmálinu stendur einn uppúr sem alvarlegastur að mínu mati. Það er liður III.
"Forstjóri Baugs hf. er ákærður í sjö liðum fyrir meiri háttar bókhaldsbrot og brot gegn hlutafélagalögum með því að hafa rangfært bókhalds Baugs hf. á árunum 2000 og 2001 með tilhæfulausum tekjufærslum, sem höfðu áhrif á afkomutölur félagsins eins og þær birtust í ársreikningum og árshlutareikningum og með því að láta senda tilkynningar um afkomu félagsins, sem m.a. byggðust á þessum röngu færslum, til Verðbréfaþings Íslands. Þetta var m.a. gert í þeim tilgangi að skapa rangar hugmyndir um hag hlutafélags og hafa áhrif á sölu eða söluverð hluta í félaginu."

Jón Ásgeir skýrir það sem svo að KPMG hafi uppáskrifað ársreikninga alla tíð. Mér finnst hálf skondin svör Jóns Ásgeirs við þessu.
"Bókhald Baugs Group hf. hefur verið endurskoðað af KPMG frá stofnun félagsins. Ársreikningar félagsins hafa verið undirritaðir athugasemdalaust allt frá upphafi. Efnahagsreikningur félagsins hefur alla tíð endurspeglað rétta og raunverulega stöðu félagsins. Þegar gert var yfirtökutilboð í hlutabréf Baugs Group og félagið skráð af markaði hér á landi, gerðu hvorki kaupendur né seljendur hlutabréfanna athugasemdir við yfirtökutilboðið þess efnis að efnahagur félagsins væri annar en hann var sýndur í bókhaldi þess. Áhugavert er að velta því fyrir sér hverjir hafi verið endanlegir þolendur þess ef verðmat hlutafjár Baugs var of hátt vegna þess að reikningarnir hafi gefið of bjarta mynd af stöðu félagsins."

Já, hann spyr að því hverjir hafi verið þolendur. Enda von, menn hafa greinilega ekkert lært af málum eins og Enron og WorldCom, þar sem æðstu stjórnendur kokkuðu bókhaldið til að fegra gengi fyrirtækjana. Fyrirtækja sem fóru svo á hausinn og skildu eftir sviðna jörð og tóma lífeyrissjóði þúsunda manna. Jón sennilega veit vel hverjir eru þolendur í þeim málum. Ársreikningar WorldCom og Enron voru uppáskrifaðir líka.

Það skiptir ekki máli að Baugur fór ekki á hausinn. Það sem skiptir máli er að sumir virðast ekki kunna að höndla frelsi á markaði með almenningshlutafélög og haga sér eins og fífl með fé almennra hluthafa (skv. ákærunum). Og hver er þolandi slíkra gjörða? Almennir hluthafar í félögum á íslenskum markaði.

Þegar Enron og WorldCom málin urðu lýðnum ljós í USA lækkuðu hlutabréfamarkaðir í Bandaríkjunum mikið og eru enn ekki búnir að jafna sig. Ástæða: Vantrú á heillindi stjórnenda. Ef Jón Ásgeir hefur gert þetta, að kokka bókhaldið, getur það skapað vantrú á hlutabréfamarkað hérlendis líka. Við höfum séð undanfarna daga hvað smá vantrú á getu bankanna hefur orsakað í gengi bréfa og á hlutabréfamarkaði hérlendis.

Hverjir eru þá þolendur þegar markaðir taka dýfur? Tja, t.d. lífeyrissjóðirnir, stærstu hluthafanir á almennum hlutabréfamarkaði. Spariféð okkar, ekkert minna. Almennir hluthafar, fólk eins og ég og þú.

Já, það er von að Jón Ásgeir spyrji hver þolandinn sé þegar/ef hann kokkar til bókhald Baugs.

Engin ummæli: