Við Elsa fórum í hádegismat saman í dag í fyrsta sinn eftir að námi lauk hjá henni. Við fórum á Lækjarbrekku og fengum þar ágætis mat. En þetta var einstök lífsreynsla. Klukkan var um hádegi þegar við fórum inn og þar tók ég eftir því að klukka sú, er mælir tímann á Lækjarbrekku, stöðvaðist á hádegi. Tíminn stoppaði þarna. Þetta var furðuleg lífsreynsla, sérstaklega fyrir þær sakir að ekkert óvenjulegt gerðist. Lífið hélt áfram sinn vanagang í þessu tímaleysi þarna inni.
Síðan lukum við mat okkar, borguðum og fórum út. Þegar út var komið var mér litið á armbandsúr mitt og viti menn, tíminn var aftur farinn af stað og var meira að segja kominn langt yfir hádegi. Þannig að tímalega séð var eins og þetta hefði aldrei gerst. Atburðurinn var algerlega einangraður við Lækjabrekku.
Nú þarf ég aftur á móti að fara að díla við þennan tvífara minn sem varð til við þetta. Gaurinn er nákvæmlega eins og ég nema hvað að hann hagar sér eins og hann hafi fæðst í dag, man ekkert, og svo talar hann aftur-á-bak. Það verður gaman að útskýra þetta fyrir fjölskyldu minni. Að ég eigi núna tvífara/burabróður sem man ekkert sem gerðist fyrir hádegi 29.06.2006 og ekki er hægt að tala við nema aftur-á-bak (eða að maður skilji sjálfur aftur-á-bak).
Engin ummæli:
Skrifa ummæli