Jæja, þá er kannski kominn neisti í fjallafíkn mína aftur. Maður þrammaði upp ófá fjöllin í frönsku Ölpunum hér áður fyrr með bakboka og ég dýrkaði þá iðju. Með árunum hafa þó hnén farið að versna og fyrir nokkur ákvað ég að hætta öllu svona, sérstaklega hlaupum, til að hlífa hnjánum enda komið slit í þau og verkir.
En hnén hafa verið til friðs undanfarið ár og okkur SAS-aranum datt í hug að skreppa upp Esjuna í gær. Sem við og gerðum. Það var kalt (-2 C°) og rok (12m/sek) en við fórum upp samt. Og ég í það minnsta komst að því enn eina ferðina að líkamlegt form mitt er ekki eins og það var fyrir fimm árum þegar ég var nýkominn heim úr frönsku Útlendingaherdeildinni og hljóp upp Esjuna án þess að blása úr nös. Nei, núna voru skrefin þung rétt áður en við komumst alla leið upp, þung af þreytu. En hnén héldu á niðurleiðinni og eru ekki að hrjá mig þessa stundina. Þannig að kannski get ég, með smá þjálfun og vinnu, farið upp á Hvannadalshnjúk í maí með SAS og spúsu hans. Ég hef svosum farið upp slíkar hæðir áður, mesta uppferð um 2000 m og hæsta hæð yfir sjávarmáli 3330 m. Það eina sem yrði nýtt við þetta er að klífa upp jökul í jafn langann tíma og jafn langa leið.
En hei, ég get allt sem ég ætla mér.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli