Ég var að horfa á Kastljósið áðan þar sem systurnar í Blátt áfram voru viðmælendur og ræddu um það kynferðislega ofbeldi sem þær urðu fyrir og áhrif þess á líf þeirra. Ég verð að segja eins og er að það voru blendnar tilfinningar sem ég bar til þessa þáttar. Sorg fyrst og fremst. Sorg yfir því sem þær lentu í og lýstu svo hreinskilningslega þarna. Sorg yfir því að þær, og svo mörg önnur saklaus börn, skyldu lenda í þessari hræðilegu lífsreynslu sem kynferðisleg misnotkun er. Sorg yfir því að þær gátu ekki, þrátt fyrir vilja og þor, komist undan þessu strax. Sorg yfir því að líf þeirra skuli vera stórskaðað tilfinningalega og andlega æ síðan.
En einnig fann ég fyrir gleði. Gleði að þær skuli koma fram svona glæsilegar og hugrakkar og vekja athygli á þessum þarfa málstað. Gleði yfir því að þær skuli ásamt öðru hugrökku og góðu fólki rjúfa þögnina sem þessi ógeðslegu myrkraverk þrífast í. Og aðdáun mín á þeim er mikil og einlæg.
Ég vona að þjóðin heyri þetta ákall og rjúfi þögnina. Að börnin sem þola þessa þjáningu heyri og stígi fram og leiti aðstoðar. Að ógeðin sem fremja þessi nýð heyri og sjái að sér. Að fólk heyri og fari að hlusta eftir ákalli á hjálp.
Gangi þeim allt í haginn blessuðum. Ég heyrði og hlusta áfram.