Undanfarið hefur Umferðastofa verið með auglýsingaherferð í gangi sem er stuðandi. Sumar auglýsingarnar ganga út á vítavert gáleysi og ég verð að segja eins og er að þær þrjár síðustu hafa vakið mig til umhugsunar. En því miður eru þeir þankagangar ekki um skilaboð auglýsinganna heldur framsetningu.
Þessar auglýsingar eru:
- Maður er að grilla á svölum án handriðs, barn er á svölunum og fellur fram af.
- Maður hleypur niður stiga með vítaverðu gáleysi og skeitingaleysi með barn í fanginu.
- Ölvaður maður sný barni í hringi, missir það, barnið skellur út í vegg og fellur niður stiga.
Svo eru tvær auglýsingar þar sem karlmann keyra á barn og annan mann en þær eru ekki í þessari upptalningu.
Í þessum þrem auglýsingum er börnum stefnt í voða með gáleysi og skeytingaleysi og í öllum tilvikum er það karlmaður sem ber ábyrgð. Mér finnst þessar auglýsingar bera vott um fordóma gagnvart karlmönnum í föðurhlutverki og einnig ýta undir slíka fordóma. Það getur verið að þetta sé tilviljun ein en ég leyfi mér að efast um það, sérstaklega vegna þess að í hinum tveim eru karlmenn við stýrið.
Þessar auglýsingar eru sjokkerandi, vekja skelfingu og sterkar tilfinningar hjá áhorfendum og að tengja karlmenn, feður, við slíka hluti eingöngu er fáránlegt og ber að fordæma harkalega. Ég skora á Umferðastofu að fara að hugsa sinn gang í þessum málum.