fimmtudagur, nóvember 24, 2005

Umskorin typpi og pokabrjóst

Við Elsa vorum að horfa á Sex and the City þátt á Skjá 1 í gærkvöldi og þar var Charlotte með einhvern nýjan kærasta. Og í fyrsta keleríinu kom í ljós að hann var ekki umskorinn. Og það fannst henni ógeðslegt. Að kærastinn væri ekki umskorinn. Og þetta var víst í fyrsta skipti sem hún sá slíkt. Svo fór hún og hitti vinkonur sínar, sagði þeim öllum frá því hvernig typpi kærastans væri, og allar höfðu þær eitthvað um þetta að segja nema hvað að Samönthu (uppáhaldskarakterinn minn) þótti þetta hið besta mál, að hann væri óumskorinn. Nema hvað, Charlotte tekur þetta upp við kærastann og hann fer á endanum í umskurð. Lætur sneiða af félaganum til að gera henni til geðs.

Ég var að velta því fyrir mér hvort að ekki væri hægt að snúa þessu við á þær stöllur. Segjum sem svo að brjóstin á Charlotte væru farin að pokast aðeins. Síga aðeins. Myndi henni þykja það smart ef nýr kærastinn myndi segja "þetta er í fyrsta skipti sem ég er með stelpu sem er ekki með stinn brjóst" og svo færi hann að ræða brjóstin hennar við félagana? Kannski væri nú einn eðlilegur í þeim hóp sem þætti það bara flott að vera með brjóst au naturelle. Svo er það nú efni í nýtt póst hvort að það sé ekki argasti dónaskapur að ræða typpi/brjóst kærastans/unar við vini sína.

Myndi Charlotte svo á endanum láta setja sílicon í brjóstin á sér til að þóknast kærastanum? Myndi það vera flott innslag í þessa þætti, flott skilaboð til kvenna? Held ekki. Mig grunar nú að þá myndi heyrast hljóð úr horni um staðalímyndir, lélega fyrirmynd og röng skilaboð til kvenna og stúlkna. Og ég myndi sjálfur taka hástöfum undir það. Öskra mig hásann.

Hvað er ég að reyna að segja með þessu? Ég er að reyna að segja að mér finnst fáránlegt að það virðist vera í lagi, í vinsælum bandarískum þætti, að ætlast til þess að typpi séu tálguð til að falla að fegurðarskyni kvenna. Typpi eru frábær tól, umskorin eður ei.

345 ummæli:

«Elsta   ‹Eldra   401 – 345 af 345
«Elsta ‹Eldra   401 – 345 af 345   Nýrra Nýjast»